Íslensk ilmvatns- og snyrtivöruframleiðsla er sífellt að verða meira áberandi og má finna íslenskar snyrtivörur mjög víða í hillum verslana hér á landi. Einnig eru snyrtivörurnar í ferðamanna- verslunum þar sem þær seljast vel. Einnig bjóða erlendar vefverslanir upp á íslenskar snyrtivörur en þær eru oftast markaðssettar sem náttúrulegar vörur og eiga að gefa fersk-ara útlit.

Ilmvatns- og snyrtivöruframleiðsla er tiltölulega nýr iðnaður hér á landi en flestir framleiðendur leggja áherslu á náttúrulegar vörur, nota íslenska vatnið og annað íslenskt hráefni beint úr náttúrunni. Til að framleiða snyrtivörur og ilmvötn þarf þó alltaf töluvert magn innfluttra aðfanga, bæði umbúðir og hráefni.

Tvöföldun

Ilmvatns- og snyrtivöruframleiðsla hefur nánast tvöfaldast milli áranna 2010 og 2009 samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands. Nam ilmvatns- og snyrtivöruframleiðsla hér á landi tæpum 200 milljónum króna árið 2009. Árið 2010 var framleiðslan komin í tæpar 380 milljónir króna. Þessar tölur sýna þó eingöngu hluta af sjálfri framleiðslunni þar sem ilmvatns- og snyrtivöruframleiðslan fellur oft undir framleiðslu innan fyrirtækja sem eru skráð sem lyfjaframleiðslufyrirtæki.

Viðmælendur Viðskiptablaðsins voru sammála um að hlutur íslenskrar framleiðslu væri að aukast í snyrtivörum hér á landi og skipti þar miklu máli hagstætt verð á innlendum vörum. Heildverslun með ilmvötn og snyrtivörur árið 2010 nam tæpum sex milljörðum sem sýnir glögglega að hér er eftir miklu að slægjast fyrir innlenda framleiðendur.

Nánar má lesa um ilmvatns- og snyrtivöruframleiðslu hér á landi í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.