Bandaríska eignarstýringarfyrirtækið Pt Capital Advisors náði á dögunum samningum við Novator um kaup á öllu hlutafé í fjarskiptafyrirtækinu Nova. Hugh S. Short, stofnandi og forstjóri Pt Capital, móðurfyrirtækis Pt Capital Advisors, segir Ísland eftirsóknarverðan markað fyrir erlenda fjárfesta um þessar mundir þrátt fyrir hátt gengi krónunnar og gjaldeyrishöft. Hann segir fyrirtækið stefna að frekari fjárfestingum hér á landi og vonast til samstarfs við innlenda fjárfestingaraðila.

Hvernig vaknaði áhugi ykkar á Íslandi?

„Pt Capital Advisors er fjárfestingarfyrirtæki sem leggur áherslu á norðurlóðir en þannig má segja að Alaska, Kanada, Grænland og Ísland sé okkar fjárfestingarsvæði. Fyrirtækið byggir á þeirri staðreynd að landsframleiðsla norðurslóðarsvæða hefur verið að aukast um 6% í heildina, svæðið er ríkt af auðlindum og áhugi ferðamanna er mikill. Þá er næg orka á þessum svæðum og öflugur sjávarútvegur. Allt þetta eru sameiginlegir drifkraftar hagkerfa þessara landa og það er m.a. ástæðan fyrir því að Ísland vakti áhuga okkar. “

Eftirsóknarverður markaður fyrir erlenda fjárfesta

Hvernig birtist íslenski markaðurinn erlendum fjárfestum eins og ykkur um þessar mundir?

„Íslenski markaðurinn er mjög öflugur um þessar mundir og hefur augljóslega styrkst mikið í kjölfar aukins ferðamannastraums að undanförnu. Þá stendur hann auk þess á sterkum grunni íslenskra orkuauðlinda. Frá sjónarhóli fjárfesta er þetta því eftirsóknarverður markaður. Við gerum einnig ráð fyrir því að dregið verði frekar úr gjaldeyrishöftum nú í kjölfar nýyfirstaðinna alþingiskosninga sem mun jafnframt gera erlendum fjárfestum hægara um vik og um leið auka aðdráttarafl íslensks fjármálamarkaðar.“

Short segir erlenda fjárfesta líta hina íslensku krónu bæði neikvæðum og jákvæðum augum. „Krónan hefur styrkst umtalsvert síðustu tólf mánuði og tók meira að segja stökk fyrr í vikunni. Hún hefur þannig styrkst umtalsvert gagnvart bandaríkjadollar, evrunni og þá sérstaklega breska pundinu sem á sama tíma veldur því að það er dýrara að fjárfesta hér á landi með erlendum gjaldmiðli. Helstu áskorunina hér á landi tel ég hins vegar vera skort á virkum afleiðumarkaði með það að markmiði að draga úr áhættu og þá sérstaklega til að draga úr gengisáhættu krónunnar. Þrátt fyrir það er það að sjálfsögðu jákvætt að krónan hafi verið að styrkjast enda gefur það til kynna að hagkerfið sé sterkt en því fylgja þrátt fyrir það líka augljóslega erfiðleikar.“

Finnur þú fyrir því að íslenskur markaður sé enn litaður af fjármálahruninu sem hér varð árið 2008?

„Undanfarin ár hafa verið mikil áskorun og vegna gjaldeyrishafta hefur það verið erfitt fyrir erlenda fjárfesta að átta sig á regluumhverfi markaðarins og því hvernig hægt er að standa að fjárfestingum og síðar koma fjármagni úr landinu. Þá getur það einnig verið erfitt að áætla við hverju eigi að búast varðandi gengi krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum.“

Sér fram á frekari fjárfestingar hér á landi

Sérðu fram á frekari fjárfestingar fyrirtækisins hér á landi?

„Já, en það er þó ekkert á þeim stigum að ég geti tjáð mig um það að svo stöddu. Við erum bjartsýn á frekari fjárfestingar hér á landi og viljum gjarnan hefja samstarf með innlendum aðilum hvað það varðar, hvort sem um er að ræða lífeyrissjóði, einstaka fjárfesta, tryggingarfélög eða aðra.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því smella á hlekkinn Tölublöð.