Björn Hákonarson forstöðumaður í gjaldeyrismiðlun Íslandsbanka segir í samtali við Viðskiptablaðið ástæðu veikingar íslensku krónunnar vera árstíðarbundinn viðskiptahalli en við það bætist sjómannaverkfall og auknar fjárfestingarheimildir erlendis.

Á mörkuðum dagsins hefur evran styrkst um 1,44% gagnvart krónunni, Bandaríkjadalurinn styrkst um 2,10%, breska pundið um 1,67%, japanska jenið um 1,50%, svissneski frankinn um 1,555 og danska, sænska og norska krónan um 1,44%, 1,57% og 1,72%.

„Stutta skýringin er sú að í desember og janúar er alla jafna viðskiptahalli við landið, því þá er meira útstreymi heldur en innstreymi fjármagns í viðskiptum við landið,“ segir Björn

„Ofan á þetta bætist sjómannaverkfall sem ekki hefur hjálpað til, því þeir eru ekki að flytja neitt út á meðan. Loks eru það svo auknar heimildir einstaklinga og lífeyrissjóða til að fjárfesta erlendis. Það er bara farið að skila sér.“