Í viðtali Viðskiptablaðsins við Idar Kreutzer, forstjóra norska tryggingafélagsins Storebrand, í dag kemur fram að hann er  hrifinn af getu íslenskra fyrirtækja til þess að þróa viðskiptamódel sitt utan landsteinanna. Ekki bara á Norðurlöndunum heldur líka í Bretlandi, meginlandi Evrópu og víðar.

"Íslensku fyrirtækin, sérstaklega bankarnir, hafa sýnt fram á hæfileika til að vaxa og skapa verðmæti ólíkt því sem við höfum séð á norrænum mörkuðum fram til þessa," segir Idar Kreutzer.

Hann bætir því við að íslensku aðilarnir séu atkvæðameiri en margir aðrir á markaðinum og það skapi kraft og hafi almennt jákvæð áhrif. "Ég lít því ekki á þetta sem innrás," ítrekar hann, "þvert á móti er áhugavert að sjá kraftinn sem skapar verðmætin." Hann segir að íslensku aðilarnir hugsi líka öðruvísi og nálgast markaðinn á annan hátt. "Og viðskiptamódelið er allt öðru vísi en þau viðskiptamódel sem við höfum séð til þessa."


Inntur eftir því hvað hann eigi við með því svarar hann: "Venjulega höfum við viðskiptabanka annars vegar og fjárfestingarbanka hins vegar. Íslensku bankarnir hugsa hins vegar meira eins og fjárfestingarbankar, sem ýtir undir kraftinn en torveldar um leið samanburð við aðra hefðbundna banka á markaðinum." Þegar hann er spurður hvort hann telji íslenska viðskiptamódelið, sem hann hefur lýst, gott eða slæmt svarar hann einfaldlega: "Það hefur gengið mjög vel."

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.