Fimm íslenskar konur hlutu verðlaun fyrir nýsköpun á hátíð Alþjóðasamtaka uppfinninga- og frumkvöðlakvenna (GWIIN / EUWIIN). Sigrún Lára Shanko textíllistamaður, stofnandi Shanko Rugs , hlaut tvær viðurkenningar að því er kemur fram í fréttatilkynningu frá SI .

Auk Sigrúnar Láru hlutu fjórar aðrar íslenskar konur verðlaun fyrir nýsköpun. Þær eru Sandra Mjöll Jónsdóttir, stofnandi líftæknifyrirtækisins Platome, en hún vann fyrst íslenskra kvenna aðalverðlaun á hátíðinni. Fyrirtæki Söndru, Platome, var verðlaunað af Viðskiptablaðinu og var valið sproti ársins.

Hjördís Sigurðardóttir, stofnandi Aldin Biodome Reykjavík var einnig verðlaunuð, sem og Margrét Júlíana Sigurðardóttir, stofnandi Mussila, og dr. Þorbjörg Jensdóttir, stofnandi Hap+.

Alls voru 40 konur í nýsköpun tilnefndar frá ýmsum löndum en 15 verðlaun eru veitt og hlutu íslenskar konur flest þeirra. Íslensku konurnar voru tilnefndar af KVENN, félagi kvenna í nýsköpun á Íslandi.