Fjórar íslenskar athafnakonur voru hluti af dagskrá SXSW ráðstefnunnar en hún er ein stærsta ráðstefna heims í tækni og afþreyingu. Það voru þær Helga Waage hjá Mobilitus, Ingibjörg Gréta Gísladóttir hjá Reykjavík Runway, Magga Dóra Ragnarsdóttir hjá Mad*Pow og Rakel Sölvadóttir hjá Skema sem héldu erindi og sátu í pallborði, en umræðuefnið var Crash & Boom: Iceland, Women and Business Success, Kreppa og uppgangur; Ísland, konur og viðskiptaárangur.

SXSW tækni- og tónlistarhátíðinni í Austin Texas er haldin á hverju ári en milljónir manna sækja hana ár hvert.

Aðrir fyrirlesarar í ár voru Elon Musk, framkvæmdastjóri Tesla Motors og Space X, Tina Roth Eisenber, hönnuður,  Rachel Sklar, fjölmiðlabloggari, Nate Silver, tölfræðingur og Al Gore, fyrrum varaforseti Bandaríkjanna.

Í fyrirlestri íslensku kvennana kom fram að í kjölfar hrunsins hafi fólk fundið til meiri samkenndar og samábyrgðar og að þörfin fyrir að byggja upp samfélagið hafi orðið æ ríkari. Hugarfarsbreyting hafi orðið þar sem nýsköpun og skapandi hugsun hafi fengið aukinn sess í samfélaginu og að tugir fyrirtækja í nýsköpun hafi verið stofnaðir sem bein afleiðing hrunsins. Þá kom fram að þó að margt sé gott í íslensku viðskiptaumhverfi þá séu gjaldeyrishöftin þrándur í götu margra og þá sérstaklega þeirra sem hyggjast sækja sér fjármagn erlendis. Erfitt, ef ekki ómögulegt, sé að halda hugverkaréttindum á Íslandi ef taka eigi inn erlendan fjárfesti og því sé oft óhjákvæmilegt að stofna félög erlendis og flytja hugverkaréttindin úr landi til þess eins að geta fengið erlent fjármagn og fagþekkingu í fyrirtækin. Skapandi og hæfileikaríkt fólk geti valið sér það samfélag sem það vill búa í og að það muni velja það samfélag sem veitir mestan stuðning og býður upp á besta viðskiptaumhverfið.