*

mánudagur, 19. nóvember 2018
Innlent 14. mars 2018 13:13

Íslenskar sjávarafurðir kaupa á Írlandi

ISI hafa keypt meirihluta í írsku fiskvinnlu- og sölufyrirtæki á allt að 1,7 milljarða íslenskra króna.

Ritstjórn
Helgi Anton Eiríksson er forstjóri ISI.
Aðsend mynd

Iceland Seafood International, áður Íslenskar sjávarafurðir, hafa keypt meirihluta í írska fiskvinnslufyrirtækinu Oceanpath Limited.

Eignast ISI 67% hlut í fyrirtækinu við kaupin, en fyrri eigendur og stjórnendur fyrirtækisins halda 33% eignarhlut. Söluandvirðið mun velta á fjárhagsstöðu fyrirtækisins en það verður á bilinu 12,4 milljónir til 13,4 milljónir evra. Það samsvarar allt að 1.654 milljónum íslenskra króna, en að hluta til er um yfirtöku skulda.

Fyrirtækið er stærsti söluaðili ferskra sjávarafurða á Írlandi en jafnframt á það vörumerkið Dunn´s of Dublin, sem reyktur lax verið seldur undir allt frá árinu 1822 í landinu. Haft er eftir Helga Anton Eiríkssyni forstjóra ISI í fréttatilkynningu að markaður fyrir fiskafurðir á Írlandi fari stækkandi og þeir séu mjög spenntir fyrir frekari tækifærum í landinu.

Væntar tekjur Oceanpath á þessu fjárhagsári sem lýkur í lok apríl eru um 33 til 35 milljónir evra. Það samsvarar allt að 4.320 milljónum íslenskra króna. Væntur hagnaður fyrir skatt er um 1,8 til 2,2 milljónir evra, en á síðasta fjárhagsári nam hagnaðurinn 1,4 milljón evra fyrir skatt. Það samsvarar miðað við núverandi gengi um 173 milljónum króna.

Núverandi eigendur Oceanpath eru Ecock fjölskyldan, en stærsti hluthafinn, Alan Ecock, mun áfram starfa sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Jafnframt munu synir hans, Ken og Trevor, áfram starfa við framkvæmdastjórn í fyrirtækinu.