Íslenskir leigusalar á vef Airbnb þéna margfalt á við leigusala á hinum Norðurlöndunum. Hlutdeild Airbnb á Íslandi jafnast á við þriðjung þess sem öll hótel landsins ná samanlagt. Þetta kemur fram í frétt Túrista .

4.000 íslenskir leigusalar eru skráðar með eignir hjá Airbnb og tóku þeir á móti hálfri milljón gesta árið 2016. Þetta kemur fram í gögnum sem að Túristi hefur undir höndum, en ekki frá Airbnb sjálfu, sem hefur verið tregt að svara spurningum um umsvif sín á Íslandi.

Í þeim gögnum kemur fram að miðgildi leigutekna íslenskra leigusala hjá Airbnb nærri 1,2 milljónir króna árið 2016. Í Danmörku og Finnlandi voru tekjurnar einungis 240 þúsund krónur en 280 þúsund í Noregi.

Í heildina seldi Airbnb 1,3 milljónir gistinátta hér á landi. Til samanburðar voru gistinætur á íslenskum hótelum 3,8 milljónir árið 2016 samkvæmt nýjum tölum Hagstofu Íslands.