Olíuleitarfyrirtækið Tanganyika Oil, sem íslenskir fjárfestar eiga stóran hlut í, hefur verið orðað við yfirtöku í kjölfar væntinga um aukna olíuvinnslu í Sýrlandi. Samkvæmt sænskum blaðafregnum er kínverska félagið China National Petroleum Corporation, sem er í eigu kínverska ríkisins, að íhuga yfirtöku á félaginu en forráðamenn Tanganyika Oil hafa ekki viljað staðfesta slíkt.

Hugsanlegt yfirtökuverð hefur verið nefnt í kringum 10 milljarða sænskra króna, eða um 96 milljarða króna, að því hefur komið fram í Dagens Industri. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins eiga íslensku fjárfestarnir ríflega 10% hlut en þeir eru annars vegar Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki, sem fjárfesti í félaginu fyrir nokkru, og íslenski vogunarsjóðurinn Boreas.


Við tíðindin um hugsanlega yfirtöku hækkuðu bréfin í Tanganyika Oil verulega en einnig hafa greiningarfélög verið að hækka mat sitt á félaginu. Þannig hefur greiningardeild Kaupþings í Svíþjóð uppfært verðmat sitt og ráðleggur fjárfestum að kaupa. Setja þeir markgengið á 210 sænskar krónur á hlut. Greiningardeildin telur að horfur félagsins séu mjög góðar og því sé um áhugaverða fjárfestingu að ræða. Tanganyika Oil Company Ltd. er kanadískt félag að uppruna en er skráð bæði í Kanada og í Svíþjóð. Það hefur framkvæmt umtalsverðar rannsóknir í Sýrlandi og á þar vinnsluréttindi.