Samstarf Ono og 3Z endurspeglar þær breytingar sem eru að verða í lyfjaþróun, þar sem lyfjafyrirtæki útvista í auknum mæli lyfjarannsóknum sínum til sérhæfðra rannsóknarfyrirtækja. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

„Lyfjauppgötvun er víðfeðmari en svo að hún rúmist eingöngu innan lyfjafyrirtækja og þau treysta í æ ríkari mæli á útvistun til sérhæfðari fyrirtækja. Þetta á sérstaklega við um þróun lyfja með virkni í miðtaugakerfinu þar sem fá ný lyf hafa komið fram síðustu áratugina“ segir Karl Ægir Karlsson, framkvæmdastjóri 3Z. „Aðferð okkar býður upp á hraðvirka leið til að skoða virkni sameinda í miðtaugakerfinu. Sú mæliaðferð sem við höfum þróað kemst nær því að lýsa áhrifum lyfjaefna eins og þau gætu orðið í klínískri notkun og flýtir því lyfjaþróunarferlinu og lækkar um leið kostnað“.

MND er taugahrörnunarsjúkdómur sem veldur skemmdum í hreyfitaugum sem liggja frá heila niður í mænu. Sjúkdómurinn leiðir til stigvaxandi lömunar og dauða á 2 til 5 árum. Engin lækning er til við MND. Tvö lyf hafa komið á markaðinn á seinustu 20 árum en þau hafa takmarkaða virkni.

Á hverju ári greinast um 200.000 manns með sjúkdóminn í heiminum og um 1 milljón sjúklinga þjáist af sjúkdóminum á hverjum tímapunkti. Á Íslandi greinast um 5 til 10 manns með sjúkdóminn á hverju ári og um 20-40 manns ganga með hann á hverjum tímapunkti.

Ono Pharmaceutical er japanskt lyfjafyrirtæki með langa sögu að baki í lyfjaþróun. Hjá því starfa yfir 3.000 manns og árleg velta er um 220 milljarða ISK (2016). Ono starfar að lyfjaþróun á nokkrum mismunandi sviðum læknisfræði, m.a. krabbameini, sykursýki, blóðmeinafræði og taugasjúkdómum.

3Z er íslenskt rannsóknafyrirtæki sem hefur þróað aðferðir til að skima lyf með háu gegnumstreymi fyrir ýmsum taugakerfissjúkdómum.  Aðferðir 3Z byggjast á því að nota sebrafiska sem dýralíkan en fyrirtækið hefur hannað erfðabreytt líkön af mennskum taugasjúkdómum í fiskinum, þar á meðal Parkinson´s, flogaveiki, ADHD, sársauka og svefnleysi.