Tide Buss, eitt stærsta rútufyrirtæki Noregs, hefur sett sér markmið að draga verulega úr eldsneytiseyðslu með því að fá bílstjóra sína til að keyra betur.

Fyrirtækið réð til sín ökukennara til að leiðbeina bílstjórunum og nýtir íslenska flotastýringarhugbúnaðinn SAGAsystem til að meta aksturslag þeirra.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ND á Íslandi, eiganda SAGA flotastýringarkerfisins.

Fram kemur í tilkynningunni að aksturslagið er mælt út frá GPS hnitasamsetningu og ferilskráningu þar sem metið er hvernig bílstjórinn keyrir þ.e.a.s. hvort hann gefi óhóflega inn, bremsi of harkalega eða aki of hratt í beygjur.

„Markmið Tide Buss er ekki eingöngu að spara eldneyti og draga úr umhverfisáhrifum, heldur einnig að auka þægindi farþega í rútum fyrirtækisins,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að ND á Íslandi fékk alþjóðlegt einkaleyfi á þessum aksturslagsmælingum í maí á síðasta ári. Fyrirtækið hefur verið með starfsstöð í Noregi síðan 2007, SAGAsystem Norge og á þeim tíma hafi fjöldinn allur af Norskum fyrirtækjum nýtt SAGA flotastýringarkerfið til að ná betri yfirsýn og sparnaði í rekstri bílaflota sinna.

„Sérstaklega hefur gengið vel síðustu mánuðina, en fyrirtæki líta á SAGAsystem sem einfalda leið til að ná fram mikilli rekstrarhagræðingu á stuttum tíma, bæði hvað varðar mannaflanýtingu og beinan rekstrakostnað farartækja,“ segir í tilkynningunni.

Hjá Tide Buss vinna um tvö þúsund bílstjórar og reka þeir rúmlega eitt þúsund rútur. Tide áætlar að það taki 4-7 ár að innleiða SAGAsystem í allan bílaflotann hjá sér.