Íslenska flotastýringarkerfið SAGAsystem hefur verið selt í tæplega eitthundrað nýja strætisvagna sem eitt stærsta rútufyrirtæki Norðurlanda tekur í notkun í Noregi nú í upphafi árs 2010. Samningar eru í undirbúningi um að selja SAGA kerfið í alla þrettánhundruð farþegabíla fyrirtækisins í Noregi og Danmörku en slíkt myndi nærri tvöfalda veltu þessa íslenska hátæknifyrirtækis segir í tilkynningu.

Þar kemur fram að norska fyrirtækið Tide Buss hefur leitað logandi ljósi að flotastýringarkerfi síðastliðin misseri og prófað fjölda slíkra kerfa í heilt ár. Niðurstaða fyrirtækisins er að íslenska kerfið skilar miklum eldsneytissparnaði og jafnframt umhverfisvænni og þægilegri akstri fyrir farþega. Þá gerir það stjórnendum kleift að fylgjast nákvæmlega með akstri og staðsetningu allra bíla fyrirtækisins auk þess sem það er notendavænna en önnur sambærileg kerfi á alþjóðamarkaði.

Allar upplýsingar um GSM

Kerfið fylgist nákvæmlega með notkun og aksturslagi hvers bíls. GPS tengdir ökuritar um borð í bílunum nema inngjafir, hraðaakstur, hemlanir, álag í beygjum, lausagang og annað aksturslag sem veldur óþarfa rekstrar- og viðhaldskostnaði og eykur tjónahættu. Þessar upplýsingar eru skráðar á einnar sekúndu fresti og sendar þráðlaust um GSM símkerfið til stjórnstöðvar SAGAsystem á Íslandi. Notendur sjá upplýsingarnar á netinu og nota þær meðal annars til að þjálfa bílstjóra í vistakstri og spara þannig stórfé.

Áralöng reynsla yfir hundrað og fimmtíu fyrirtækja sýnir að notkun á SAGAsystem dregur úr eldsneytis- og viðhaldskostnaði um 5-15%, lækkar tjónatíðni og þar með tryggingaiðgjöld. „Við spörum hátt í tuttugu milljónir á ári í olíu- og viðhaldskostnað með þessu kerfi” segir Sigurdór Sigurðsson, framkvæmdastjóri rútufyrirtækisins Allrahanda sem rekur um fimmtíu rútur, allar með slíkum ökuritum. „Mestu verðmætin eru samt þau að ökuferðin verður þíðari og um leið ánægjulegri fyrir viðskiptavini.”

„Samstarf við erlent stórfyrirtæki eins og Tide Buss fer nærri því að tvöfalda veltu okkar á næstu misserum og er mesta viðurkenning sem kerfið hefur fengið á alþjóðlegum markaði. Þessi samningur hefur þegar opnað fjölda viðskiptatækifæra fyrir okkur utan Íslands” segir Þórólfur Gunnarsson, framkvæmdastjóri SAGAsystem ehf. í tilkynningu.

Norska fyrirtækið segir notkun á kerfinu veita þeim forskot í útboðum fyrir akstursverkefni þar sem það skilar auknu umferðaröryggi og þægindum fyrir farþega og minnkar mengun.

SAGAsystem ehf er íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki sem framleiðir og þjónustar kerfi til stjórnunar á bílaflota fyrirtækja. Kerfið hefur verið í notkun um árabil hjá fjölmörgum íslenskum fyrirtækjum svo sem Eimskip, Ölgerðinni, Vífilfelli, Íslandspósti, Allrahanda, Ístaki, Landsneti og fleirum. Hjá fyrirtækinu starfa tíu manns auk þriggja hjá dótturfélagi í Noregi.