Ísland hefur stokkið upp um fjögur sæti í lista yfir samkeppnishæfni skattkerfis OECD ríkja. Fer Ísland úr 24. sæti í 20. sæti meðal 34 OECD þjóða.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Tax Foundation (TF) sem tekur árlega saman vísitölu yfir samkeppnishæfni skattkerfa þjóða (e. International Tax Competitiveness Index).

Ísland er jafnframt landið sem bætir við sig næstflestum stigum í vísitölunni eða fjórum stigum á eftir Portú- gal sem bætir við sig 4,5 stigum og fer úr 33. sæti í það 31.  Í skýrslunni kemur fram að helsta ástæðan fyrir því að Ísland fer upp um fjögur sæti á milli ára sé afnám auðlegðarskattsins.

Hlutfallslega stöndum við verst í tekjuskatti einstaklinga en þar erum við í 28. sæti af þeim 34 löndum sem stofnunin tekur til athugunar í skýrslunni. Við erum í tólfta sæti þegar kemur að fyrirtækjasköttum og í því tíunda í vísitölu alþjóðlegra skatta.

Eistland í fyrsta sæti

Það land sem er í efsta sæti listans er Eistland en á eftir því kemur Nýja-Sjáland og svo Sviss.

Í skýrslunni kemur fram að fjórir þættir skýri það helst af hverju Eistland trónir á toppnum þetta árið. Í fyrsta lagi er 20% fyrirtækjaskattur, í öðru lagi er flatur 20% tekjuskattur einstaklinga, í þriðja lagi tekur eignaskattur aðeins til verðmæti landeignar í stað þess að skattleggja fasteignir eða fjármagn og í fjórða lagi eru allar erlendar tekjur fyrirtækja undanþegnar skattlagningu innanlands.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .