Frá því í janúar 2010 og til loka desember 2011 nam nettóaukning óverðtryggða útlána innlendra fjármálastofnana til heimila rúmlega 287 milljörðum. Vöxturinn í óverðtryggðum útlánum til heimila hefur haldist um tvöfalt hærri á mánuði að meðaltali það sem af er ári miðað við árin 2010 og 2011.

Þetta segir í fréttabréfi Júpiters þar sem fjallað er um minnkandi vinsældir verðtryggðra húsnæðislána samhliða aukinni óverðtryggðri lántöku. „Nettósamdráttur varð í verðtryggðum útlánum innlánsstofana allt fram í desember 2011, þegar nettóaukning mældist. Á fyrstu mánuðum þessa árs hefur síðan mælst nettóaukningu í öllum mánuðum – þó talsvert mikið minni en aukning óverðtryggðra lána. Talsvert ríkari kröfur eru gerðar um eiginfjárframlag við fasteignakaup fjármögnuð með óverðtryggðum lánum heldur en verðtryggðum. Verði þróunin sú að óverðtryggð lán verði reglan fremur en undantekningin, má álykta að það verði aðeins að færi vel stæðra einstaklinga að festa kaup á fasteign – að minnsta kosti snemma á ævinni,“ segir í fréttabréfinu.

Lagabreytingar breyta litlu

Hlutdeild nýrra útlána Íbúðalánasjóðs af heildarveltu á fasteignamarkaði hefur minnkað frá því að vera um þriðjungur lána í tæp 14%. Að mati Júpiters verður því ekki annað séð en að íslensku bankarnir séu að skilja Íbúðalánasjóð eftir í rykinu í fjármögnun íbúðahúsnæðis. „Fyrirhuguð lagabreyting um starfsemi Íbúðalánasjóðs mun vart snúa þessari þróun við. Í frumvarpi þar að lútandi er gert ráð fyrir að hámarkslánshlutfall verði lækkað úr 90% í 80% af verðmæti fasteignar og að hámarkslán sjóðsins muni nema 50 milljónum króna.“