Íslenskur fiskur er uppistaðan í 20 milljónum máltíða á degi hverjum í þeim rúmlega 80 löndum sem kaupa íslenskt sjávarfang. Á síðasta ári nam útflutningur sjávarafurða 654 þúsundum tonna og verðmæti þeirra var 244 milljarðar króna. Sjávarafurðir voru 41% af heildarútflutningsverðmætum þjóðarinnar og beint framlag sjávarútvegsins til landsframleiðslu var 12% árið 2014. Þetta var meðal þess sem fram kom á Sjávarútvegsdeginum, ráðstefnu sem Samtök atvinnulífsins, Deloitte og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi stóðu fyrir í dag.

Ísland hefur mikla sérstöðu í samanburði við stærstu fiskveiðiþjóðir heims þar sem sjávarútvegur er ríkisstyrktur. Í máli Hallveigar Ólafsdóttur, hagfræðings hjá SFS, kom fram að hvert veitt tonn sem Norðmenn veiða kosti norska ríkissjóðinn 19.000 krónur meðan hvert veitt tonn af íslenskum skipum skili 3.700 krónum í ríkissjóð. Fjárfesting útgerðarinnar skilar einnig meiri arði hér þar sem hvert íslenskt fiskiskip kemur með rúmlega tvöfalt meiri afla að landi en norsk og um helmingi færri skipverjar standa að baki hverju veiddu tonni á íslensku skipunum.

Mesta fjárfesting frá 2002

Jónas Gestur Jónasson, löggiltur endurskoðandi og meðeigandi hjá Deloitte, sagði í erindi sínu að ljóst sé af rekstrartölunum að íslenskur sjávarútvegur standi styrkum fótum. Tekjur og framlegð sjávarútvegsfélaganna stóð í stað á milli áranna 2013 og 2014. Framlegðin var 61 milljarður króna og 23% af heildartekjunum. Jónas segir að frá árinu 2008 hafi safnast upp mikil fjárfestingarþörf sem skýri væntanlega tvöföldun fjárfestinga í greininni milli áranna 2013 og 2014.  Heildarfjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum námu 27 milljörðum króna á síðsta ári og hafa ekki verið meiri frá árinu 2002.

Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis, sagði að rekstur fyrirtækja í sjávarútvegi hafi batnað á síðustu árum, tekjur ríkissjóðs hafi aukist og starfsemi tæknifyrirtækja blómstri vegna þjónustu við útgerðina. Hann segir íslenska tækniþekkingu lykilinn að nýrri hugsun og nýrri nálgun í fiskvinnslunni sem miðar að því að gera hliðarafurðir verðmætari og auka verðmæti á hefðbundnum afurðum. Innan fyrirtækis hans hefur verið unnið að þróun nýrrar skurðarvélar í samstarfi við Marel sem nýtir hvert fiskflak betur en áður og sker það niður í þá bita sem kaupendur vilja hverju sinni. Framleiðslugeta vélarinnar er 500 bitar á mínútu, eða 250 máltíðir. Pétur sagði vélina bæði auka gjaldeyristekjur þjóðarinnar og skapa nýjan tekjugrunn með nýjum og verðmætum útflutningsvörum.