Áörfáum árum hefur íslenskur leikjaiðnaður tekið stakkaskiptum eins og hendi væri veifað. Í upphafi 21. aldarinnar var tölvuleikjaiðnaður varla starfandi hér á landi, en í dag teljast til þessa iðnaðar um átján fjölbreytt fyrirtæki sem velta saman álíka miklu og útgáfustarfsemi í landinu. Málshátturinn margur er knár, þó hann sé smár er lýsandi fyrir iðnaðinn; hann er lítill innan hagkerfisins, en afkastamikill miðað við stærð. Hann skipar æ veigameiri sess í upplýsingatæknigeiranum og þjónar sem mikilvægur vaxtarsproti hugverkaiðnaðar á Íslandi.

Vex hraðar en hagkerfið

Íslenski tölvuleikjaiðnaðurinn hefur vaxið talsvert undanfarin ár og haft jákvæð hagræn áhrif. Tölvuleikjaframleiðendur á Íslandi voru u.þ.b. 7 árið 2009 en voru 18 talsins í fyrra. Á þessu tímabili hefur greinin vaxið að jafnaði um 18% á ári miðað við veltu, en á sama tíma hefur hagkerfið vaxið að meðaltali um 1,3% á ári. Uppsöfnuð velta iðnaðarins frá 2009 nemur um 68 milljörðum króna samkvæmt tölum frá Samtökum iðnaðarins (SI). Veltan hefur vaxið nær samfellt undanfarinn áratug, en á árunum 2005 til 2009 sexfaldaðist hún og hefur síðan tvöfaldast frá árinu 2009. SI áætla að velta tölvuleikjaiðnaðarins hafi náð nýju hámarki á síðasta ári og numið yfir 11 milljörðum króna, sem er um 15% af veltu upplýsingatæknigeirans.

Samhliða vaxandi umsvifum hefur leikjaiðnaðurinn einnig skapað störf hér á landi. Árið 2009 störfuðu 311 einstaklingar í greininni, en árið 2014 voru þeir um 443. Velta á hvern starfsmann í iðnaðinum var tæplega 20 milljónir árið 2014 og meiri en velta á hvern starfsmann í upplýsingatækni á Íslandi. Ekki liggja fyrir uppfærðar tölur að svo stöddu.

Ekki er hæpið að lýsa tölvuleikjaiðnaðinum hér á landi sem innflutningi á gjaldeyri. Nánast allar rekstrartekjur iðnaðarins, eða tæplega 98%, koma frá útlöndum. Til samanburðar er útflutningur kvikmyndagerðar 30-40% af rekstrartekjum og innan við 10% af veltu hjá fjarskiptageiranum.

Innan hagkerfisins og í samanburði við aðrar atvinnugreinar er tölvuleikjaiðnaðurinn í smærri kantinum. Hann veltir innan við 1% af landsframleiðslu á ári. Veltan er álíka mikil og í útgáfustarfsemi, en minni en í kvikmyndaiðnaði (26,5 milljarðar). Í norrænum samanburði er íslenski tölvuleikjaiðnaðurinn þó stór í sniðum. Samkvæmt finnskri samantekt frá árinu 2016 var velta í íslenskum tölvuleikjaiðnaði sú fjórða mesta og meiri heldur en í þeim norska. Mest var veltan í Finnlandi. Þar að auki var velta á íbúafjölda næst hæst á Íslandi samkvæmt samantektinni. Almennt standa Norðurlöndin framarlega á sviði tölvuleikjaframleiðslu.

CCP trónir á toppnum

Fyrirtæki á íslenskum leikjamarkaði eru mismunandi eins og þau eru mörg. CCP er langstærst þeirra fyrirtækja sem framleiða tölvuleiki á Íslandi. Velta fyrirtækisins nam tæplega 10,4 milljörðum króna árið 2016, sem jafngildir um 90% af heildarveltu iðnaðarins. Hjá fyrirtækinu starfa 350 starfsmenn á starfsstöðvum fyrirtækisins í Reykjavík, Shanghai, Atlanta, Newcastle og London, en þar af eru um 225 í Reykjavík. Fyrirtækið framleiðir fjölspilunarleikinn EVE Online, en notendur leikjarins eru mun fleiri en öll íslenska þjóðin.

Fyrir utan CCP eru minni og yngri fyrirtæki á markaðnum, einkum sprotafyrirtæki, sem hafa ólíkar áherslur í vöruframboði sínu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .