Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur undirritað nýja reglugerð um skráningu afla á opinberum sjóstangaveiðimótum en slík mót eru haldin víða um land á hverju sumri á vegum sjóstangveiðifélaga.

Frá þessu er sagt á heimasíðu stjórnarráðsins og þar má finna reglugerðina nýju.

Með reglugerðinni er leitast við að einfalda framkvæmd aflaskráningar en sjóstangaveiðifélögunum eru með lögum um stjórn fiskveiða tryggðar fullnægjandi aflaheimildir vegna mótanna og skal tekjum af sölu aflans ráðstafað til að standa á móti kostnaði við mótshaldið. Reglugerðin var sett að höfðu samráði við Landssamband sjóstangaveiðifélaga og Fiskistofu. Reglugerðin er birt í Stjórnartíðindum.

Kristján Þór skrifar af þessu tilefni á facebook síðu sína fyrr í dag:

„Sjóstangveiðimót hafa verið haldin hér á landi í meira en hálfa öld. Mikil óvissa hefur verið um framtíð greinarinnar, m.a. þar sem regluverkið sem hún býr við hefur verið of íþyngjandi og flókið. Það var því ánægjulegt að undirrita í gær nýja reglugerð fyrir opinber sjóstangveiðimót. Með reglugerðinni er leitast við að einfalda það regluverk sem gildir um greinina, m.a. varðandi framkvæmd uppgjöra vegna mótanna, og treysta þannig grundvöll hennar hringinn í kringum landið. Ég vil þakka forsvarsmönnum greinarinnar og Fiskistofu fyrir þeirra framlag við þá vinnu.“