Vöxtur í framleiðni vinnuafls á Íslandi minnkaði verulega milli áranna 2004 og 2010 og hefur framleiðnin nokkurn veginn staðnað síðan. Þetta kemur fram í skýrslu OECD um íslenska hagkerfið sem birt var í vikunni. Framleiðni á hvern starfsmann er minni á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum í öllum greinum atvinnulífsins nema í fjármálastarfsemi og landbúnaði. Mestu munar í iðnaði og í upplýsinga- og fjarskiptafyrirtækjum.  Framleiðsla á hverja vinnustund er minni á Íslandi en á öllum hinum Norðurlöndunum.

Í skýrslu OECD segir að stöðnunin sem hefur orðið í framleiðni vinnuafls sé áhyggjuefni. Kröftugur vöxtur í greinum á borð við sjávarútveg, stóriðju og fjármálastarsemi hafi hingað til endað með stöðnun eða hruni. Þessi vöxtur í tilteknum greinum hafi ekki auðgað hagkerfið varanlega vegna þess að sú hæfni og þau framleiðslutæki sem notuð eru í þessum greinum hafi oft á tíðum lítið notagildi í öðrum geirum atvinnulífsins.

OECD leggur til víðtækar breytingar á rekstrarumhverfi fyrirtækja hér á landi til að auðvelda frumkvöðlastarfsemi og nýsköpun. Leyfisveitingar eru sagðar vera flóknar hér á landi, sérstaklega vegna íþyngjandi laga og reglugerða sem stjórnvöld eru hvött til að endurskoða. Samkeppnisumhverfið er sagt vera erfitt og eru yfirvöld hvött til þess að berjast harðar gegn fákeppni í vissum geirum.

Vinnumarkaðurinn þarf að bregðast við eftirspurn

„Það að halda vinnuaflinu hæfu snýst um að vera mjög næmur fyrir því hvað vinnumarkaðurinn hefur spurn eftir," segir Angel Gurría, framkvæmdastjóri OECD, í samtali við Viðskiptablaðið. "Hvaða hæfni þurfa vinnustaðir? Ekki skólagráður, heldur þá hæfileika sem raunverulega er krafist."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .