Já hf. hagnaðist um 232 milljónir króna árið 2014.  Rekstrartekjur félagsins námu 1.025 milljónum króna og rekstrargjöld voru 750 milljónir króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Hagnaður Já hf. dróst saman á milli ára, en á árinu 2013 nam hann 311 milljónum króna, sem var besta rekstrarárið í sögu félagsins.  Rekstrartekjur Já árið 2014 drógust saman um 90 milljónir króna samanborið við árið á undan, en rekstrargjöld drógust jafnframt saman um 55 milljónir króna.

„Afkoma félagsins er góð og í samræmi við áætlanir félagsins. Við erum bjartsýn á framtíðina og vinnum markvisst að því að efla þjónustu og lausnir Já“, segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, forstjóri Já.

Já hf. er í meirihlutaeigu Auðar I fagfjárfestasjóðs sem er í eigu margra stærstu lífeyrissjóða landsins. Hjá félaginu störfuðu alls 80 starfsmenn í árslok 2014.