Já.is setur í dag í loftið nýtt smáforrit, Já.is appið. Þetta er í fyrsta sinn sem upplýsingar af Já.is, sem geymir upplýsingar um 94% landsmanna, eru gefnar út á app-formi. Þótt appið hafi ekki komið formlega út þá er það orðið vinsælt og hafa yfir 5.000 manns sótt það. Miða við aukna notkun Já.is í gegnum spjaldtölvur og snjallsíma síðustu misseri má búast við að fjöldi þeirra sem noti appið muni telja yfir 100.000 manns áður en langt um líður.

Appið virkar fyrir síma og tæki sem keyra á Android-stýrikerfi og stýrkerfum Apple.

Fram kemur í tilkynningu Já að þriðjungur þeirra sem heimsækja Já.is geri það í gegnum spjaldtölvur eða snjallsíma og muni appið bæta aðgengi þeirra notenda að upplýsingum vefjarins til muna.

Þá segir í tilkynningunni að hönnun og framsetning upplýsinga í appinu er bylting frá því sem Íslendingar þekkja í númeraleit en á bilinu 5-10 sekúndur tekur að opna appið og fá þær upplýsingar sem óskað er eftir í samanburði við 30-50 sekúndur sé farið í gegnum Já.is í vafra símtækis. Í mörgum tilvikum getur verið hraðvirkara að finna einhvern í gegnum Já.is appið heldur en að fletta upp tengiliðum í símanum.

Ókeypis verður að fletta upp í appinu líkt og á vefnum Já.is. Ásamt því að geta fundið upplýsingar um símanúmer er einnig hægt að hringja, senda sms skilaboð eða tölvupóst, skoða staðsetningu á korti, fá vegvísun, finna afgreiðslutíma, samfélagsmiðla og finna umsagnir um fyrirtæki í gegnum appið.