Ísfisktogarinn Gullver NS kom til Seyðisfjarðar í gærmorgun að lokinni veiðiferð og var aflinn rúmlega 82 tonn. Uppistaða aflans var þorskur og karfi.

Þórhallur Jónsson skipstjóri segir í viðtali við heimasíðu Síldarvinnslunnar í Neskaupstað að vel hafi gengið að veiða en veðrið hafi hins vegar verið leiðinlegt.

„Þorskinn fengum við á Fætinum en karfann í Hornafjarðardýpi og Öræfagrunni. Það hefur verið góður afli það sem af er árinu en í febrúar og það sem af er marsmánuði hafa verið bölvaðar brælur. Menn eru orðnir hálfþreyttir á veðurlaginu. Það hefur verið meiri fiskur hérna fyrir austan en verið hefur á þessum árstíma síðustu tvö árin. Síðustu tvö ár þurftum við að fara vestur á Selvogsbanka til að fá þorsk í mars- og aprílmánuði en nú er staðan allt önnur,“ segir Þórhallur.

Til stóð að Gullver héldi til veiða á ný í gærkvöldi en vegna veðurs var brottför frestað. Gert er ráð fyrir að skipið leggi úr höfn í kvöld.