Elvar Orri Hreinsson, sérfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka, sem sá meðal annars um gerð skýrslu bankans um ferðaþjónustu fyrir árið 2017, segir í samtali við Viðskiptablaðið að það sem sé að gerast er að í maí og júní er vöxturinn í komu ferðamanna sé hægari en hann hefur verið undanfarin ár. „Eins og ég horfi á þetta er þetta ekki endilega eitthvað neikvætt. Á einhverjum tímapunkti varð að fara að hægjast á þessum vexti. Þú ert alltaf með vöxt ofan á stærri og stærri grunn,“ segir hann.

Það sem hann sér jákvætt við þessa þróun er að vöxturinn núna á fyrstu sex mánuðum ársins 2017 er 39%, en var 36% í fyrra. „Það segir okkur það að þeir mánuðir sem eru ekki á háannatíma vaxa hraðar, það hefur verið þróunin. Sem hlýtur að teljast jákvætt fyrir greinina að það sé að myndast meira jafnvægi í rekstrargrundvelli fyrir ferðaþjónustufyrirtæki allt árið um kring,“ segir hann.

Álagið er alltaf mest á innviðina yfir sumartímann, þegar massinn af ferðaþjónustunni kemur til landsins. Um helmingur allra ferðamanna kemur hingað í júní, júlí, ágúst og september. Ef það dreifist úr vextinum, þá dreifist álagið jafnframt á innviðina að sögn Elvars Orra, sem telur þá þróun einnig jákvæða.

Holskefla af sameiningum?

Elvar Orri tekur fram að þegar kreppir að í rekstraraðstæðum líkt og hefur verið uppi á teningnum að undanförnu vegna styrkingar krónunnar og fyrirhugaðrar hækkunar virðisaukaskatts, þá verði einhver grisjun fyrir smærri aðila, sem hafa takmarkaða stærðarhagkvæmi. „Þá gæti komið einhver holskefla af sameiningum,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .