Sjóvá hefur skrifað undir samning við Félag kvenna í atvinnulífinu (FKA) um samstarf í hreyfiaflsverkefninu Jafnvægisvoginni sem fór af stað í síðustu viku. Að verkefninu standa auk FKA velferðarráðuneytið, Deloitte og Morgunblaðið. Markmið Jafnvægisvogarinnar er að árið 2027 verði hlutfallið á milli kynja 40/60 í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á Íslandi.

Í tilkynningu frá FKA segir að Sjóvá hafi látið til sín taka í jafnréttismálum á undanförnum árum. Ný lög um jafnlaunavottun tóku gildi 1. janúar 2018, en Sjóvá hefur haft jafnlaunavottun frá árinu 2014. Stjórnendur fyrirtækisins eru stoltir af því að frá fyrstu úttekt hefur engra breytinga verið þörf á launum og hefur launamunur mælst nær enginn.

„Við hjá Sjóvá erum stolt af þeim árangri sem við höfum náð í jafnréttismálum. Við vorum með fyrstu fyrirtækjum til að fá Jafnlaunavottun VR og höfum náð góðum árangri í að jafna kynjahlutföll á öllum sviðum fyrirtækisins. Jöfn kynjahlutföll eru í stjórn, framkvæmdastjórn og stjórnendahópi félagsins. Við erum ánægð og stolt yfir því að Félag kvenna í atvinnulífinu hafi leitaði til okkar sem samstarfaðila um Jafnvægisvogina. Í okkar huga eru þessi mál ekki geimsvísindi heldur markmið og ákvarðanir. Við hlökkum til samstarfsins við FKA og teljum að okkar reynsla geti komið að góðum notum við það að jafna hlut kvenna í stjórnun fyrirtækja.“ segir Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvá í tilkynningunni.

Lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja sem ná til fyrirtækja með 50 starfsmenn eða fleiri hafa ekki veitt konum á Íslandi aukin völd innan stjórna fyrirtækjanna. Þrátt fyrir aukna menntun kvenna skila þær sér ekki í framkvæmda- og forstjórastóla en 67% nemenda sem útskrifast úr háskólum á Íslandi eru konur en einungis 11% forstjóra.

„Við sem stöndum í brúnni hjá FKA erum afar ánægð með að hafa fengið til liðs við okkur jafn öfluga samstarfsaðila og raun ber vitni en Sjóvá er til fyrirmyndar í jafnréttismálum. Fyrirtæki sem ekki ráða hæfar konur í stjórnunarstöður missa einfaldlega af gríðarlegum mannauði og þekkingu bæði í menntun og reynslu." segir Guðrún Ragnarsdóttir, stjórnarkona FKA og talsmaður Jafnvægisvogarinnar í tilkynningunni.