Ísland er í efsta sæti yfir jöfnuð milli kynjanna í heiminum samkvæmt mælingu Alþjóðaefnahagsráðsins (World Economic Forum), níunda árið í röð.

Í kynningu á niðurstöðunum er bent á að jafnrétti hafi ekki gerst sjálfkrafa heldur hafi þurft til baráttu og samstöðu kvenna, pólitískan vilja, lagasetningar og kynjaða fjárlagagerð.

Noregur og Finnland eru í næstu sætum á eftir Íslandi en lestina reka Sýrland, Pakistan og Jemen sem er í botnsæti þeirra 144 þjóða sem mælingin tekur til.

Ein af meginniðurstöðum skýrslu þessa árs er að eftir tíu ára hægfara framfarir á heimsvísu þar sem kynjabilið hefur minnkað, sýna niðurstöður ársins 2017 bakslag segir á vef Jafnréttisstofu . Dregið hafi í sundur með körlum og konum á öllum sviðum, hvort sem horft sé til heilbrigðis, menntunar, stjórnmála eða efnahagslífs. Bakslagið mælist þó einkum þegar horft sé til stöðunnar á vinnumarkaði og í stjórnmálum.

Jafnréttiskvarðinn er byggður á mælingum á fjórum sviðum sem taka til stöðu kynjajafnréttis á sviði heilbrigðis, menntunar, efnahagslífs og stjórnmála. Á efnahagssviðinu er meðal annars horft til launamunar kynjanna, atvinnuþátttöku og kynjahlutfalla í hópi stjórnenda. Menntunarþátturinn er metinn út frá menntunarstigi karla og kvenna, heilbrigðisþátturinn tekur meðal annars mið af lífslíkum og jafnrétti á sviði stjórnmála er metið út frá stjórnmálaþátttöku kynjanna en staða Íslands árið 2017 miðar við hlutfall kvenna á Alþingi fyrir kosningarnar 28. október síðastliðinn þegar hlutur kvenna á Alþingi lækkaði úr 48% í 38%.