Jakob Sigurðsson sem ráðinn var seint síðasta sumar sem forstjóri Vátryggingafélags Íslands hefur sagt starfi sínu hjá félaginu lausu. Tekur hann við sem forstjóri breska félagsins Cictrex plc. sem er skráð á hlutabréfamarkað í Bretlandi.

Hluti af FTSE 250 vísitölunni

Félagið er hluti af FTSE 250 hlutabréfavísitölunni og er markaðsverðmæti þess 250 milljarðar króna að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá VÍS.

Félagið er leiðandi í framleiðslu fjölliða (polymers) og telja viðskiptavinir þess t.a.m. stærstu flugvéla- og snjalltækjaframleiðendur heims.

Jakob mun starfa áfram sem forstjóri VÍS á meðan stjórn vinnur að því að finna eftirmann hans og þannig tryggja að forstjóraskipti hafi sem minnst áhrif á félagið.

Tíminn styttri en reiknaði með

„Það er mikil eftirsjá af frábærum og kraftmiklum samstarfsmönnum hjá VÍS,“ er haft eftir Jakobi í tilkynningunni.

„Tími minn sem forstjóri VÍS varð styttri en ég reiknaði með en tækifærið sem mér býðst nú er einfaldlega þess eðlis að því var ekki hægt að hafna.

Ég hef mikla trú á þeirri vegferð sem VÍS er á og óska starfsmönnum góðs gengis í þeim verkefnum sem framundan eru um leið og ég þakka þeim af alhug samfylgdina síðustu mánuði.”

Tækifæri sem marga dreymir um

„Jakob hefur leitt stefnumótun VÍS af miklum krafti og hafa bæði núverandi og fyrrverandi stjórnir félagsins yfirfarið hana,“ segir Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir, stjórnarformaður VÍS.

„Það kemur alltaf maður í manns stað og er VÍS vel í stakk búið til að takast á við þær áskoranir sem framtíðin felur í sér. Jakobi hefur boðist starfstækifæri sem marga dreymir um og getum við ekki annað en samglaðst honum og stutt hann í þessari ákvörðun.

Fyrir hönd stjórnar VÍS vil ég þakka Jakobi fyrir gott starf í þágu félagsins og um leið óska honum velfarnaðar á nýjum vettvangi.”