Í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar er stuttur undirkafli um ferðaþjónustuna. Þar er kveðið á um að áhersla verði lögð á verkefni sem stuðla að samhæfðri stýringu ferðamála, áreiðanlegri gagnaöflun og rannsóknum, náttúruvernd, aukinni arðsemi greinarinnar, dreifingu ferðamanna um land allt og skynsamlegri gjaldtöku, t.d. með bílastæðagjöldum.

Eitt af stærstu fyrirtækjum landsins sem lifa og hrærast að miklu leyti í heimi ferðaþjónustunnar er Bláa lónið. Eins og Viðskiptablaðið hefur áður gert að umfjöllunarefni sínu hefur reynsla Bláa lónsins á bókunarkerfi sem stuðlar að aðgangsstýringu og dreifingu álagstíma verið mjög jákvæð.

Margt jákvætt í stjórnarsáttmála

Dagný Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Bláa lónsins, segir í samtali við Viðskiptablaðið, spurð út í nýja ríkisstjórn þau stefnumál sem lögð verður áherslu á, að það sé margt jákvætt í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar sem lýtur að ferðaþjónustunni.

„Á síðasta kjörtímabili var Stjórnstöð ferðamála sett á laggirnar, en um er að ræða samstarfsvettvang stjórnvalda og ferðaþjónustunnar. Það er mikilvægt að það góða starf fái fulla athygli stjórnvalda þannig að ferðaþjónustan geti haldið áfram að blómstra. Þá leggur ríkisstjórnin áherslu á stöðugleika í gengismálum, ábyrgð í ríkisfjármálum og sátt á vinnumarkaði. Það eru grunnforsendur heilbrigðs rekstrarumhverfis fyrirtækja. Það eru því vissulega jákvæð teikn á lofti hjá nýrri ríkisstjórn þegar kemur að málefnum ferðaþjónustunnar,“ tekur Dagný fram.

Gæði og sérstaða fram yfir fjölda

Spurð að því hver framtíðarsýn Bláa lónsins þegar kemur að fjölda ferðamanna sem sækja landið heim, segir hún að það sé mikilvægt að greinin sé vakandi yfir mögulegum sveiflum í eftirspurn.

„Í því sambandi er skiptir miklu að  við séum að laða rétta samsetningu ferðamanna til landsins, bæði hvað varðar markaðssvæði og að við sækjum í þá ferðamenn sem eru að leita að einstakri upplifun og eru reiðubúnir að greiða fyrir hana. Þannig sköpum við meira virði fyrir allt samfélagið og byggjum upp sérþekkingu í ferðaþjónustu hér á landi sem byggir á gæðum og sérstöðu fremur en fjöldaferðamennsku,“ segir Dagný.

Ísland öruggur áfangastaður

Dagný segir að Ísland hefur notið góðs af því undanfarin ár að ferðamenn líti almennt á Ísland sem öruggan áfangastað. En nýlega hefur verið nokkuð um væringar og umbrot á alheimssviðinu. Dagný segir ferðaþjónustuna þess eðlis að þessar væringar og umbrot geti haft tímabundin áhrif á eftirspurn í ferðaþjónustu.

„Við fylgjumst að sjálfsögðu með þróuninni í umheiminum en  kannski ekki síst hvort náttúran hér heima bæri á sér,“ bætir Dagný við.

Umræða um gjaldtöku og aðgangsstýringu af hinu góða

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, nýr ráðherra ferðamála, hefur sagt í viðtali við Viðskiptablaðið að erfitt sé að hafa eitt sameiginlegt gjald fyrir aðgang að ferðamannastöðum.

„Það er auðvitað augljóst að það verkefni blasir við og það verður að vinna það. Staðan kallar á uppbyggingu og einhvers konar aðgangsstýringu, það er alveg ljóst,“ er haft eftir Þórdísi Kolbrúnu í viðtalinu en hún tekur þó fram að hún geti ekki enn slegið föstu hvaða stefnu hún taki sem ráðherra.

Spurð að því hvaða skoðun hún hafi á hugmyndir nýs ferðamálaráðherra um aðgansstýringu á ferðamannastöðum segir Dagný að öll umræða um gjaldtöku og aðgangstýringu sé af hinum góða. „Það sem þarf hins vegar að hafa í huga er að gjaldtaka snúi að virðisaukandi þjónustu. Þá er mikilvægt að nýta gjaldtöku til bætts skipulags á viðkomandi svæðum og þannig aukinnar dreifingar, eftir mismunandi álagstímum o.s.frv. Við höfum góða reynslu af aðgangsstýringu í Bláa lóninu, en þannig erum við að vernda upplifun okkar gesta,“ tekur Dagný fram.

Dagný bætir við að lokum að hún haldi að áframhaldandi samráð stjórnvalda og þjónustuaðila í ferðaþjónustu skipti öllu máli þannig að tryggð verði að ferðaþjónustan þróist enn frekar sem mikilvæg stoð í íslensku efnahags- og atvinnulífi.