Þrátt fyrir að hálfgerðar dómsdagsspár hafi birst í fyrirsögnum fjölmiðla um allan heim í kringum Brexit þjóðaratkvæðagreiðsluna og forsetakjör Donalds Trump í Bandaríkjunum hækkuðu hlutabréfamarkaðir á heimsvísu á síðasta ári. MSCI heimsvísitalan hækkaði um rúmlega 8% og hafa alþjóðlegir hlutabréfamarkaðir hækkað samfleytt frá árinu 2011. Ekki er útlit fyrir að viðsnúningur verði á þessari þróun á árinu, heldur eru horfur á erlendum mörkuðum almennt jákvæðar.

Þetta sagði Robert Parker, aðalráðgjafi fjárfestingarbankans Credit Suisse, á ráðstefnu Kviku á Grand Hótel fyrir viku. Parker kynnti þar horfur á erlendum mörkuðum fyrir árið 2017, en hann hefur sótt landið heim á ári hverju frá 2004 og gefið fjárfestum innsýn í tækifæri og áhættur í öllum eignaflokkum á erlendum mörkuðum í samstarfi við Kviku og forvera bankans. Hann er í hópi virtustu ráðgjafa og sérfræðinga í Evrópu þegar kemur að greiningu markaða, ráðgjöf og eignastýringu.

Hagvöxtur batnandi fer

Hagvöxtur á heimsvísu fer batnandi og spáir Credit Suisse auknum hagvexti í heiminum árið 2017, eða 3,4-3,5% borið saman við 3% væntan hagvöxt árið 2016. Leið­andi hagvísar á borð við vísitölur pantanastjóra (PMIs) og framleiðsluvísitölur í stærstu hagkerfum heims og á evrusvæðinu eru enn fremur á uppleið.

Að sögn Parkers eru efnahagshorfur í Bandaríkjunum góðar. Spáð er allt að 2,5% hagvexti. Bandaríkin eru stærsta hagkerfi heims og þ.a.l. er gott efnahags­ ástand þar jákvætt fyrir aðra heimshluta. Einkaneysla, framleiðsla og fjárfesting hefur verið að aukast og væntingavísitölur hafa hækkað. Enn fremur er gott ástand á vinnumarkaði.

Lykil­ þátturinn í efnahagslegri framvindu Bandaríkjanna er þó fjármálastefna Trumps. Ef marka má kosningaloforð Trumps mun hann lækka fyrirtækjaskatta, auka innviðafjárfestingar og minnka regluverkið. „Trump mun slaka á aðhaldi ríkisfjármála, sem mun hafa jákvæð áhrif á bandaríska hagkerfið og hlutabréfamarkaðinn þrátt fyrir að peningamálastefnan verði aðhaldssamari,“ sagði Parker. Væntingar eru um að fjármálastefna Trumps muni hækka verðbólgu í Bandaríkjunum í 2,5%.

Í Evrópu hægir víða á hagvexti, en spáð er um 1,4% hagvexti á evrusvæðinu. Útflutningur í Evrópu mun aukast með veikingu evrunnar undanfarið á móti Bandaríkjadollar. Horfurnar í evrópskum stjórnmálum fram í september eru þó óljósar og ríkir mikil pólitísk óvissa í Evrópu vegna kosninga í Hollandi, Frakklandi, Ítalíu og Þýskalandi á árinu. Stjórnmálaöfl andvíg Evrópusambandinu og evrunni hafa verið að sækja í sig veðrið samkvæmt skoð­anakönnunum.

„Óvissan mun draga úr fjárfestingum í Evrópu, sem hamlar hagvöxt. Vegna kosninganna munu evrópsk ríki auka aðhald í ríkisfjármálum, sem setur þrýsting á Seðlabanka Evrópu til að halda magnbundinni íhlutun áfram, en það hefur neikvæð áhrif á evruna,“ sagði Parker. Enn fremur eru fjármálakerfi enn löskuð víða í Evrópu, t.d. á Ítalíu og Grikklandi, sem hægir á hagvexti.

Vöxtur í nýmarkaðsríkjum fer einnig batnandi og spáir Credit Suisse 5,8% hagvexti í BRIC-löndunum. Hrávörumarkaðir hafa tekið við sér eftir lægð síðustu ára, sem hefur jákvæð áhrif á nýmarkaði. Hlutabréfamarkaðir á ný­ mörkuðum eru hlutfallslega ódýrari en á þróaðri mörkuðum og mun hlutabréfaverð því hækka meira á nýmörkuðum.

Hagvöxtur í Asíu er enn mikill þrátt fyrir að hafa lækkað undanfarin ár. Í Kína eru einkaneysla, smásöluvelta og innviðafjárfestingar í miklum vexti. Í Japan hefur gengisstyrking jensins undanfarna tvo mánuði dregið úr verðhjöðnunaráhættu, aukið útflutning og uppfært hagvaxtarspár í allt að 1,3%.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .