*

föstudagur, 26. apríl 2019
Innlent 19. september 2016 14:30

Jákvætt skref að lækka veiðigjöldin

Heiðrún Lind Marteinsdóttir telur varasamt að leggja of há gjöld á sjávarútveginn.

Alexander F. Einarsson
Heiðrún Lind Marteinsdóttir tók nýlega við starfi framkvæmdastjóra SFS.
Haraldur Guðjónsson

Heiðrún Lind Marteinsdóttir er nýr framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Hún telur umræðuna um sjávarútveginn að einhverju leyti á villigötum og telur að núverandi fyrirkomulag sé betra en þau sem finnast annars staðar.

Það vakti talsverða umræðu þegar veiðigjöldin voru lækkuð. Fannst þér stjórnvöld taka rétta ákvörðun með lækkun veiðigjalda? Væri sömuleiðis óskynsamlegt að hækka þau aftur?

„Ég tel í öllu falli að menn þurfi að hugsa það gaumgæfilega ef hækka á gjöld á sjávarútveg. Eins og ég nefndi áður verður að horfa á það alþjóðlega umhverfi sem sjávarútvegurinn er í og hvað hann er að skila til samfélagsins í samanburði við fyrirtæki í öðrum ríkjum sem við erum að keppa við. Staðan er sú að hann er í flestum tilvikum að borga meira en erlendir samkeppnisað­ ilar. Að því leytinu til var jákvætt skref að lækka veiðigjöldin. Ég ætla ekki að fara í umræðuna um prósentur eða krónur til eða frá varðandi það hvort hækka eigi veiðigjöld eða lækka. Það má þó benda á að sjávarútvegur býr við stóra áhættuþætti. Fiskistofnar geta dregist saman eða horfið, erlendir markaðir geta lokast og gengisbreytingar geta haft veruleg áhrif. Ef þessir áhættuþættir raungerast þá kann velgengni dagsins í dag að hverfa á morgun. Stjórnvöld eiga því, eins og raunar í öllum atvinnugreinum, að skapa hér skilyrði til þess að fyrirtæki geti mætt utanaðkomandi áföllum en ekki að þyngja þeim enn frekar róðurinn. Velgengni er ekki fasti. Hún orsakast í fyrsta lagi af eljusemi og í öðru lagi af utanað­ komandi breytum sem geta sveiflast frá einum tíma til annars og við höfum litla stjórn á. Umliðin ár hafa þessar breytur vafalaust verið okkur hagfelldar, en þetta getur breyst í einu vetfangi. Það kann að vera að einhverjum svíði fréttir af hagnaði í sjávarútvegi á þessu tímabili, en það þarf líka að skoða hvernig þessum hagnaði er varið. Eftir erfið ár í aðdraganda efnahagshrunsins 2008 var komin mikil þörf fyrir fjárfestingu og endurnýjun tækja í sjávar­ útvegi. Á árunum 2013-2017 erum við t.a.m. að fá 12 ný skip inn í flotann. Það er því verið að nýta þá uppsveiflu sem verið hefur í greininni til að fjárfesta, þannig að auka megi tekjur til framtíðar. Með auknum tekjum í sjávarútvegi fara auknir fjármunir í sameiginlega sjóði ríkisins. Ábati greinarinnar er því ábati allra.“

Þetta er gjarna málað upp þannig að sjávarútvegurinn sé að fá „afslátt“ upp á milljarða sem hægt væri að nýta t.d. í heilbrigðiskerfið eða menntakerfið. Er eðlilegt að líta á hlutina með þessum augum?

„Ég held að það þurfi alltaf að horfa á ríkisfjármál í heild sinni og að það sé ekki einhver ein grein sem á að halda uppi tilteknum rekstri ríkisins. Árið 2014 greiddi sjávarútvegurinn 24 milljarða til ríkisins í formi tekjuskatts, veiðigjalda, hafnargjalda, aflagjalda o.s.frv. Er hægt að reka sjúkrahús og annað fyrir þá fjármuni? Svo sannarlega. Er verið að veita sjávarútveginum afslátt? Svo sannarlega ekki. Af þessum 24 milljörðum sem ég nefndi áður borgaði útvegurinn 8,8 milljarða í tekjuskatt og 8,1 milljarð í veiðigjöld. Sjávarútvegur býr því í raun við tvöfalda skattheimtu. Mér er það til efs að aðrar atvinnugreinar gætu staðið undir slíku. Á einhverjum tímapunkti verðum við að spyrja okkur hvort við séum ekki farin að skaða greinina með of hárri gjaldtöku og þar með draga úr hæfni hennar til að afla tekna, sem að endingu verður til þess að hún getur greitt minna til samfélagsins.“

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim