Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands lækkaði stýrivexti í gær. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, voru lækkaðir úr 5,25% í 5%. Bæði Daði Kristjánsson, fjármálahagfræðingur sem starfar í markaðsviðskiptum hjá Arctica Finance, og Agnar Tómas Möller, sjóðsstjóri hjá GAMMA Capital Management, segja stýrivaxtalækkunina jákvætt skref, þó hún sé bæði lítil og seint á ferðinni. Rík ástæða sé til frekari lækkunar á stýrivöxtum.

Tónninn skiptir máli

„Það er ánægjulegt að Seðlabankinn er aðeins byrjaður að sjá ljósið,“ segir Daði. „Það er áhugavert að bankinn skuli nú benda á samsetningu hagvaxtarins í stað þess að líta eingöngu á háar hagvaxtartölur. Þetta er traustur hagvöxtur drifinn áfram af útflutningi. Vöxtur einkaneyslu er minni en aukning kaupmáttar, þannig að þetta er ekki skuldsettur vöxtur.

Síðan var áhugavert að Seðlabankinn nefndi gengi krónunnar sem ástæðu fyrir lækkuninni. Gengið hækkaði meira milli funda fyrir vaxtaákvörðunina í nóvember heldur en það gerði fram að ákvörðuninni í gær. Mér finnst líkön eða mat Seðlabankans ekki hafa náð að endurspegla þetta nýja hagkerfi í vaxtaákvörð­ unum, en með þessari vaxtalækkun eru þeir kannski að átta sig á stöðu mála.“

Daði bætir við að vaxtalækkunin hefði mátt vera ríflegri. „0,25 prósenta lækkun umbyltir engu í hagkerfinu. Fyrir flesta einstaklinga með verðtryggð húsnæðislán hefur þetta nánast ekkert að segja. Þetta lækkar aðeins fjármagnskostnað fyrirtækja. Krónan er áfram að styrkjast og verðbólga hefur verið undir markmiði í þrjú ár. Þar að auki eru ekki væntingar um að verðbólga fari upp í markmið eða yfir það á næstunni. Þannig að þetta er mikilvægt skref, en samt ekki nóg. Þetta þarf að gerast hraðar.“

Agnar tekur í svipaðan streng. „Það var kominn tími til að Seðlabankinn lækkaði vexti, þó svo að þessi lækkun hafi verið lítil,“ segir Agnar.

„Það sem skiptir mestu máli er þó tónninn í rökstuðningi Seðlabankans fyrir þessari lækkun. Með því að lækka vexti er markaðurinn að vonast til þess að Seðlabankinn sé að senda þau skilaboð að ef ríkisfjármálin og vinnumarkaðurinn verða í lagi, þá munu þeir halda áfram að lækka vexti.

Við þessar aðstæður tel ég að Seðlabankinn hefði átt að lækka meira og senda út þau skilaboð að vaxtalækkunin yrði dregin til baka ef ríkisfjármálin og vinnumarkaðurinn færu út af sporinu. Það er mikil þörf á vaxtalækkun til að koma í veg fyrir ójafnvægi sem er að myndast með hraðri styrkingu krónunnar. Verðbólga er lág. Gjaldeyrisforðinn er síðan mjög dýr á háum vöxtum – vafalaust langdýrasti gjaldeyrisforði heimsins með 5% vaxtamun. Við þessar kringumstæður væri æskilegra að lækka vexti hraðar til að draga úr hraða styrkingar krónunnar, og hugsanlega hækka þá aftur ef nauðsyn krefur.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .