Ríkisstjórn Japans hefur samþykkt aðgerðir til örvunar efnahagslífsins sem nema um 28 þúsund milljörðum jena, eða 275 milljörðum dala, sem samsvarar um 33 þúsund milljörðum eða 33 billjónum króna.

Þriðja stærsta hagkerfi heims

Eru aðgerðirnar liður aðgerðum forsætisráðherra landsins, Shinzo Abe til að reyna að blása lífi í efnahag þriðja stærsta hagkerfis heims, auka hagvöxt og berjast gegn verðhjöðnun.

Innifalið í aðgerðunum er 7,5 þúsund milljarðar jena í eyðslu á vegum ríkis og sveitarfélaga á næstu tveimur árum. Er áætlað að eyða meira en helmingi þess á yfirstandandi ári.

Enduruppbygging á náttúruhamfarasvæðum

Aðalritari ríkisstjórnarinnar, Yoshihide Suga sagði að aðgerðirnar yrðu innifaldar í fjáraukalögum sem rædd verða á aukaþingfundi í september.

Ríkisstjórnin býst við að aðgerðirnar muni auka við landsframleiðslu um 1,3%, en hagfræðingar hafa lýst yfir vonbrigðum.

Innifalið í aðgerðunum er uppbygging á innviðum og enduruppbygging á svæðum sem illa hafa orðið úti í náttúruhamförum, til að mynda í norðaustur Japan sem fór illa út úr jarðskjálftum og flóðbylgju árið 2011.

Hækka laun starfsmanna í ummönnun og barnagæslu

Hluti af greiðslunum verður einnig nýtt til að hækka laun þeirra sem sjá fyrir eldri borgurum og börnum og styðja við lítil fyrirtæki og fjölskyldur með lágar tekjur.

Takuji Okubo, aðalhagfræðingur hjá Japan Macro Advisors í Tokyo sagði að aðgerðirnar myndu hafa „mjög skammvinnar afleiðingar.“

Aðgerðirnar koma í kjölfarið á því að Seðlabanki landsins slakaði á peningastefnu sinni.