Japönsk stjórnvöld hafa ákveðið að draga landið út úr alþjóðahvalveiðiráðinu og hefja hvalveiðar í atvinnuskyni í júlí næstkomandi. Er þetta í fyrsta sinn í 30 ár sem Japan mun veiða hvali í hreinu atvinnuskyni, en landið hefur stundað vísindaveiðar í nokkuð stórum stíl síðustu ár, með veiðum á 333 hvölum árlega síðustu tvö árin að því er NPR greinir frá.

Löng hefð er fyrir hvalkjötsáti í Japan, þó undir hvalveiðibanni alþjóðahvalveiðiráðsins sem stofnað var til að stýra og samræma nýtingu auðlindarinnar, hafi dregið mjög úr neyslu þess í Japan á þessum þremur áratugum. Þannig sé hún í dag einungis um 5 þúsund tonn á ári í stað 200 þúsund tonna á sjöunda áratugnum.

Á sama tíma tilkynningu stjórnvöld að hætt verði veiðum við Suðurskautið, þar sem vísindaveiðarnar hafa verið stundaðar en hvalkjötið hefur verið selt á japansmarkaði sem aukaafurð. Þess í stað verða veiðarnar framkvæmdar á japönsku hafsvæði að sögn Yoshihide Suga, ráðherra og talsmanns japönsku ríkisstjórnarinnar.

Gagnrýndi Suga að Alþjóðahvalveiðiráðið hefði misst sjónar á upphaflegu markmiði sínu um að stýra veiðum og væri þess í stað að einblína að banna þær. „Þó vísindarannsóknir hafi staðfest að nóg er til af sumum hvalategundum og stofnum,“ þá hafi að sögn Suga þjóðir sem séu í andstöðu við hvalveiðar haldið áfram að einblína „eingöngu á vernd hvala“.

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra í ríkisstjórn Íslands segir ákvörðunina ekki snerta Ísland á neinn hátt og hann ætli ekki að hafa skoðun á henni að því er RÚV greinir frá. Eitt íslenskt fyrirtæki, Hvalur hf. flytur út nokkuð af hvalkjöti á japansmarkað.

„Þetta er bara ákvörðun sem að sjálfstæð fullvalda þjóð tekur um aðild sína að alþjóðlegum samtökum og í rauninni ekkert meira um það að segja. Þetta er bara ákvörðun Japana sem að þeir taka á sínum eigin forsendum og útaf fyrir sig hefur maður skilning á þessari ákvörðun þeirra,“ segir Kristján Þór.