Japanska þingið samþykkti í dag nýja löggjöf þar sem að banni við fjárhættuspilum er aflétt. Samvkæmt spám greiningaraðila er reiknað með að aflétting bannsins gæti skilað Japönum um 30 milljarða dollara á ári eða því sem jafngildir 3.367 milljörðum íslenskra króna.

Japönsk stjórnvöld sjá þetta sem kjörið tækifæri til að fá innspýtingu í þetta þriðja stærsta hagkerfi heimsins, sem hefur þurft að glíma við nokkra stöðnun. CNN Money greina frá.

„Stærstu fyrirtækin í bransanum álíta Japan sem hið heilaga gral, þegar kemur að markaðsstærð,“ er haft eftir greiningaraðila hjá miðlarafyrirtækinu CLSA.

Stórfyrirtæki á borð við Las Vegas Sands og MGM Resorts munu líklega keppast um markaðshlutdeild á Japansmarkaði. Þó er fólk misáhugasamt um þessar breytingar sem eiga sér nú stað. Stór hluti Japana er andsnúinn fjárhættuspilum og hafa ýmsir aðilar varað við hinum félagslegu hættum sem fylgja fjárhættuspilum.

Samkvæmt nýrri rannsókn japönsku sjónvarpsstöðvarinnar NHk eru 44% andvígir nýju löggjöfinni en einungis 12% almennings styðja hana. Aðrir höfðu ekki mótað sér afstöðu.