Frumkvöðullinn og milljarðamæringurinn Elon Musk, sem meðal annars á geimferðafyrirtækið SpaceX, afhjúpaði í morgun fyrsta farþega fyrirtækisins í hringferð um tunglið. Farþeginn er hinn 42 ára gamli japanski milljarðamæringur, Yusaku Maezawa, samkvæmt frétt BBC .

Tískujöfurinn Maezawa sagðist í tísti klukkan 2 í gærnótt að staðartíma, „velja að fara til tunglsins“. Til stendur að ferðin verði farin árið 2023, en eldflaugin sem ferja á Maezawa út fyrir himinhvolf jarðar og koma honum af stað í 800 þúsund kílómetra ferðalagið hringinn í kring um tunglið og til baka, hefur enn ekki verið smíðuð. Musk setti því þann fyrirvara við fyrirætlanirnar að ekki væri fullkomlega tryggt að eldflaugin myndi virka sem skyldi.

Ef af henni verður yrði geimförin sú fyrsta mannaða síðan 1972, en aðeins 24 manneskjur hafa farið til tunglsins, allar frá Bandaríkjunum, og aðeins 12 þeirra lentu á yfirborði tunglsins. Maezawa mun hinsvegar ekki lenda á tunglinu, hann mun aðeins fara hringferð um tunglið og snúa svo heim.

Maezawa, sem er mikill listaunnandi – og vakti meðal annars athygli fyrir að borga rúma 12 milljarða króna fyrir málverk eftir listmálarann fræga, Jean-Michel Basquiat – hyggst bjóða 6-8 listamönnum víðsvegar að úr heiminum með sér í ferðina, og biðja þá síðan um að skapa eitthvað í kjölfarið.