Hugsanlegt er að endurbyggja þurfi aðstöðuna við Jarðböðin við Mývatn vegna mikillar aðsóknar ef fram heldur sem horfir. Útlit er fyrir að 130 þúsund gestir muni heimsækja böðin í ár og er það fimmtungsaukning á milli ára. Þetta segir Gunnar Atli Fríðuson, framkvæmdastjóri Jarðbaðanna, í samtali við Morgunblaðið .

Gunnar Atli segir að þrátt fyrir leiðinlegt veður í sveitinni í sumar hafi ferðamenn verið duglegir við að heimsækja böðin. „Erlendir ferðamenn gera sínar ferðaáætlanir, fylgja þeim og mæta. Fjölgunin er í kringum 20% milli ára. Hún er fyrst og fremst í komum erlendra ferðamanna,“ segir hann.

Til samanburðar komu 65 þúsund gestir í böðin árið 2008. Stefnir því í að gestafjöldinn tvöfaldist á sjö árum og telur Gunnar Atli að með þessu áframhaldi verði gestirnir fleiri en 200 þúsund á ári innan fárra ára.