Fjárfestingarfélaginu J.C. Flowers & Co, sem seldi Kaupþingi hollenska bankann NIBC í síðasta mánuði, hefur verið veittur aðgangur að bókhaldi breska bankans Northern Rock vegna hugsanlegs yfirtökutilboðs. Frá þessu greindi dagblaðið The Daily Telegraph í gær og hækkaði gengi bréfa í Northern Rock um 9,2% í kjölfarið. Forsvarsmenn breska bankans hafa ekki viljað staðfesta fréttina, en á þriðjudaginn hafði fyrirtækið sagt að fjölmargar fyrirspurnir hefðu borist frá áhugasömum fjárfestum.

Heimildir Telegraph herma að væntanlegt tilboð J.C. Fowers sé hið eina sem geri ráð fyrir því að bankanum verði ekki skipt upp. Aðrir hugsanlegir fjárfestar hafa uppi áform um að skipta eignum bankans á milli sín, meðal annars fjárfestingarhópur sem bandaríska fyrirtækið Cerberus fer fyrir, en breska blaðið segir að hópurinn hafi einnig fengið aðgang að bókhaldi Northern Rock. Fjármálaskýrendur telja að það yrði auðveldara fyrir Northern Rock að ná samkomulagi við J.C. Flowers ef rétt reynist að félagið ætli ekki að skipta bankanum upp.

Fréttir af áhuga J.C. Flowers á Northern Rock koma á sama tíma og fjárfestingarfélagið tilkynnti að það hygðist draga til baka 26 milljarða Bandaríkjadala tilboð sitt í heildsölubankann Sallie Mae. Bandaríski bankinn sagði að hann myndi fara í málaferli við J.C. Flowers ef félagið stæði ekki við gerða samninga.