Gengi hlutabréfa í breska bankanum Northern Rock hækkaði um 9,2% eftir að dagblaðið Daily Telegraph birti óstaðfesta frétt um að fjárfestingafélagið J.C. Flowers & Co hafi fengið bókhald bankans til skoðunar vegna væntanlegs yfirtökutilboðs. Á þetta er bent í Vegvísi Landsbankans.

Þar kemur einnig frm að gengi Northern Rock hækkaði í gær vegna yfirlýsinga bankans um að hann ætti í viðræðum við fjárfesta um yfirtöku.


J.C. Flowers & Co. seldi Kaupþingi hollenska bankann NIBC um miðjan ágúst. Þegar þeim kaupum lýkur mun J.C. Flowers verða næst stærsti hluthafi Kaupþings. Stofnandi og framkvæmdastjóri fjárfestingafélagsins J.C. Flowers & Co. er J. Christopher Flowers, fyrrverandi framkvæmdastjóri Goldman Sachs.