Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, segir þann tíma liðinn þar sem stéttaskipting í samfélaginu hafið verið lítil sem engin og að misskipting hafi aukist jafnt og þétt á undanförnum árum. Þetta kemur fram í pistli sem Elín Björg skrifaði í tilefni af baráttudegi verkalýðsins en pistilinn má lesa í heild sinni hér.

„Þeir sem tala hvað hæst fyrir mikilvægi efnahagslegs stöðugleika, en átta sig ekki á mikilvægi þess að koma á félagslegum stöðugleika, ættu að líta til þessa. Jöfnuður í samfélaginu er ein helsta forsenda stöðugleika. Á meðan sumir eiga varla til hnífs og skeiðar og horfa á aðra greiða sjálfum sér margföld árslaun venjulegs launafólks í bónusa eða arð verður engin sátt og enginn stöðugleiki. Eftir því sem misskiptingin í samfélaginu verður meiri munu þau átök sem einkennt hafa samfélag okkar undanfarið harðna,“ skrifar Elín.

Þá segir hún að ef stjórnmálamönnum og öðrum sem tala um stöðugleika sé einhver alvara verður að byrja á því að tryggja launafólki og almenningi öllum mannsæmandi lífskjör og draga úr misskiptingunni frekar en að halda áfram að auka ójöfnuð.

Hátt leiguverð til komið vegna fjársterkra húsnæðisfélaga og útleigu á íbúðum til ferðamanna

„Undanfarið hefur verið mikið fjallað um erfiða stöðu á húsnæðismarkaði. Húsnæðisverð og leiguverð hafa hækkað gríðarlega, meðal annars vegna uppkaupa fjársterkra húsnæðisfélaga og útleigu á íbúðum til ferðamanna. Það eru grundvallarhagsmunir almennings að hafa örugga búsetu. Þar hefur verkalýðshreyfingin þurft að grípa til beinna aðgerða. BSRB og ASÍ hafa tekið höndum saman um stofnun Bjargs íbúðafélags. Félagið mun byggja að lágmarki 1.150 íbúðir á næstu fjórum árum og leigja þær tekjuminni félagsmönnum. En það þarf meira til. Stjórnvöld og sveitarfélögin þurfa að taka höndum saman strax um að leysa vandann svo allir geti keypt eða leigt húsnæði á eðlilegum kjörum,“ segir Elín.

Segir styttingu vinnuvikunnar lofa góðu

BSRB tekur þátt í tveimur tilraunaverkefnum um styttingu vinnuvikunnar án launalækkunar. Elín segir það lengi hafa verið stefnu bandalagsins að stytta vinnuvikuna úr 40 stundum í 36 og að tilraunaverkefnin séu mikilvægt skref í þá átt.

„Tilraunaverkefni BSRB og Reykjavíkurborgar hefur nú verið í gangi í tvö ár. Í vor fór svo í gang tilraunaverkefni á stofnunum ríkisins sem afar spennandi verður að fylgjast með. Fyrstu niðurstöður úr verkefni Reykjavíkurborgar lofa góðu. Mælingar sýna marktækt betri líðan starfsmanna, aukna starfsánægju og minni veikindi. Á móti má ekki merkja að breyting sé á afköstum starfsmanna. Ef ætlunin er að byggja upp norrænt velferðarsamfélag sem stendur undir nafni er einnig nauðsynlegt að skoða samspil atvinnulífs, skóla og heimila. Markmiðið verður að vera að draga úr árekstrum og álagi á fjölskyldufólk. Auka þarf sveigjanleika í starfi svo starfsmenn geti sinnt börnum í skóla og öðrum aðstæðum sem geta komið upp í einkalífinu.“