Vöruviðskipti Íslands við útlönd voru óhagstæð um 15,9 milljarða króna í aprílmánuði samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands , sem er eilítil hækkun frá sama mánuði fyrir ári þegar þau voru óhagstæð um 15,6 milljarða króna, á gengi hvors árs.

Nam verðmæti vöruútflutningsins 50,2 milljörðum króna, en verðmæti vöruinnflutningsins námu 66,1 milljarði króna í síðasta mánuði, en verðmæti vöruútflutningsins var 3,7 milljörðum króna hærri í apríl í ár en í fyrra, eða 7,8% hærri á gengi hvors árs.

Á sama tíma var verðmæti vöruinnflutningsins 3,9 milljörðum hærri í apríl í ár en apríl í fyrra, sem er 6,8% hækkun á gengi hvors árs. Var mesta aukningin í útflutningnum í viðskiptum með sjávarafurðir, en í innflutningnum var það á hrá- og rekstrarvöru.

Ef tölurnar eru skoðaðar á greiðslujöfnuði nam vöruútflutningurinn í febrúarmánuði 45,7 milljörðum króna, en vöruinnflutningurinn 59,7 milljörðum, svo vöruviðskiptajöfnuðurinn á þeim mælikvarða var neikvæður um rúma 14 milljarða í febrúar.

Á sama tíma var þjónustujöfnuðurinn áætlaður jákvæður um 9,3 milljarða, en Hagstofan áætlar að útflutt þjónusta hafi verið að andvirði um 40,6 milljarða króna, meðan innflutt þjónusta var áætluð 31,3 milljarðar króna.

Í febrúarmánuði var því verðmæti útflutnings vöru- og þjónustuviðskipta 86,3 milljarðar en áætlað verðmæti innflutnings vöru- og þjónustuviðskipta var 91,1 milljarður. Vöru og þjónustujöfnuður var því áætlaður neikvæður um 4,8 milljarða í febrúar 2019.