Heildverslunin Johan Rönning skilaði 520,9 milljóna króna hagnaði í fyrra, en til samanburðar nam hagnaður fyrirtækisins 301,8 milljónum króna. Kemur þetta fram í ársreikningi fyrirtækisins. Velta fyrirtækisins nam 5,7 milljörðum króna og jókst um tæpar 800 milljónir króna milli ára. Framlegð jókst verulega, var 1.442,7 milljónir árið 2014, en var 1.797 milljónir í fyrra.

Eignir félagsins námu um síðustu áramót 2.734,4 milljónum og jukust um 746 milljónir á milli ára. Skuldir námu 1.733 milljónum og voru nær alfarið skammtímaskuldir. Eigið fé um síðustu áramót nam 938,6 milljónum króna.

Stjórn félagsins leggur til að á þessu ári verði greiddur arður að fjárhæð 650 milljónir króna vegna rekstrarársins 2015. Félagið er í eigu þeirra Lindu Bjarkar Ólafsdóttur og Boga Þórs Siguroddsonar, aðallega í gegnum félagið AKSO ehf.