Jöklasýning Perlu norðursins var formlega opnuð að viðstöddum Degi B. Eggertssyni borgarstjóra, hagsmunaaðilum og öðrum gestum í gær sunnudag. Opnaði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fyrst nýjan manngerðan íshelli í einum af hitaveitugeymunum með því að saga sig í gegnum stóra ísblokk með keðjusög að vopni inni í hellinum sjálfum.

Því næst gafst gestum tækifæri á að skoða nýja margmiðlunarsýningu á annarri hæð hitaveitugeymisins, þar sem lögð er áhersla á jökla og lífríki þeirra. Að því loknu var gestum boðið á 1. hæð Perlunnar þar sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri ávarpaði gesti að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Perlu norðursins.

Perla norðursins stendur fyrir metnaðarfullri og nútímalegri náttúrusýningu sem miðlar upplýsingum um náttúru Íslands, sérkenni hennar og þróun, nýtingu náttúruauðlinda og náttúruvernd og vistfræði Íslands í alþjóðlegu samhengi. Sýningin Jöklar og íshellir er fyrsti hluti náttúrusýningarinnar í Perlunni og er áætlað að annar hluti hennar opni 1. maí 2018 þar sem einblínt verður á landið, ströndina, hafið og norðurljósin.

Í byggingunni er einnig starfrækt kaffihús Kaffitárs og nýr veitingastaður mun líta dagsins ljós á 5. hæð Perlunnar sem ber heitið Út í bláinn. Á 4. hæð hússins er starfrækt ný gjafavöruverslun Rammagerðarinnar. Fyrr í vikunni var undirritað samkomulag þess efnis að Náttúruminjasafn Íslands muni fá aðstöðu til sýningarhalds á nýrri annarri hæð Perlunnar í tengslum við 100 ára afmæli fullveldis Íslands árið 2018.