Jökull Sólberg, stofnandi Takumi, hefur verið ráðinn til ráðgjafastarfa hjá Parallel ráðgjöf. Jökull var áður vörustjóri hjá tölvuleikjafyrirtækinu Plain Vanilla sem framleiddi leikinn QuizUp.

Árið 2015 stofnaði hann í kjölfarið Takumi sem er breskt fyrirtæki á sviði Instagram markaðssetningar með starfsstöðvar í London, New York og Berlín. Jökull var forstjóri Takumi en hefur nú stigið til hliðar til að ganga til liðs við Parallel sem ráðgjafi í verkefnum sem tengjast stafrænni vegferð.

Um Parallel

Parallel er tækniráðgjafafyrirtæki sem sérhæfir sig í ráðgjöf fyrir fyrirtæki í stafrænni vegferð. Fyrirtækið var stofnað af þeim Arndísi Thorarensen og Þórhildi Eddu Gunnarsdóttur en þær starfa einnig sem ráðgjafar hjá fyrirtækinu.

Aukin áhersla á stafræna og sjálfvirka þjónustu hjá fyrirtækjum og stofnunum sem og krafan um óaðfinnanlega notendaupplifun skapar þörf hjá fyrirtækjum um greiningu stafrænna tækifæra. Parallel hefur sérhæft sig á markaði í að greina slík tækifæri og stýra umbreytingu með virkri þátttöku í framkvæmd verkefna til að tryggja ávinning stafrænnar þróunnar.