Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði kl. 13, reglugerð sem felur í sér friðlýsingu Jökulsárlóns og nærliggjandi svæðis sem hluta Vatnajökulsþjóðgarðs. Undirritunin fór fram við Jökulsárlóni. Þjóðgarðurinn mun því nú ná frá hæsta tindi landsins niður að fjöru. Breytingin felur í sér að hluti Þjóðvegar 1 liggur nú í gegnum þjóðgarð í fyrsta sinn.

Friðlýsingin tekur til jarðarinnar Fells og nærliggjandi þjóðlenda. Gengið var frá kaupum ríkisins á Felli í Suðursveit í janúar síðastliðinn. Jörðin Fell nær yfir Jökulsárlón að hluta og á landamerki að þjóðlendum vestan vegna lónsins og norðaustur af Felli. Með friðlýsingunni eru þessi svæði felld inn í Vatnajökulsþjóðgarð, alls um 189 ferkílómetrar. Það þýðir að Vatnajökulsþjóðgarður er þar með 14.141 ferkílómetrar að flatamáli að því er kemur fram í tilkynningu frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Ólokið mál

Ekki eru allir sáttir með friðlýsinguna, en lögmaður Fögrusala ehf. sem keyptu jörðina Fell fyrr í vetur , sagði í samtali við Mbl.is að þetta væri „brútal aðgerð af hálfu ríkisins,“ um friðlýsinguna. Hann segir að verið sé að sækja mál á hendur ríkisins sem gæti leitt til þess að lónið teljist ekki eign ríkisins. Hann segir því sjálfsagt að bíða með friðlýsingu þar til því máli sé lokið.

Í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins sagði Hróbjartur: „Mér finnst þetta vera mjög einkennileg og slæm stjórnsýsla og hrein valdníðsla. Ríkið er í dómsmáli útaf þessari jörð þar sem reynir á það hvort ríkið hafi komist yfir jörðina með löglegum hætti. Auðvitað á ríkið að bíða með svona aðgerðir þangað til búið er að leysa úr því. Að setja svona íþyngjandi kvaðir á jörðina hefur fyrst og fremst þann tilgang á þessum tíma að mínu viti að hafa áhrif á stöðu umbjóðanda míns í málinu.“

Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra hefur þó ekki áhyggjur af dómsmálinu í október og segir við Fréttastofu RÚV eða það liggi alveg ljóst fyrir að ríkið sé eigandi. „Við erum þinglýstur eigandi, við höfum afsalið af jörðinni, Íslendingar eru búnir, almenningur er búinn að borga fyrir jörðina Fell þannig að það er alveg klárt. En ef menn ætla að reyna að snapa sér einhverjar skaðabætur þá bara gera menn það fyrir dómstólum. En eins og ég segi þá bíðum við ekki með náttúruvernd á meðan menn höfða mál fram og til,“ tekur ráðherra fram.