Nokkur samdráttur varð í veltu byggingavöru- og húsgagnaverslunar í desember miðað við sama mánuð árið 2017. Telst þetta til nokkurra tíðinda enda hefur takturinn frekar verið upp á við síðustu misseri. Þetta kemur fram í nýrri greiningu frá Rannsóknarsetri verslunarinnar.

Velta í flokki húsgagna dróst saman um 7,6% frá fyrra ári og var jafnframt 6,8% minni í desember en í nóvember. Desember er jafnan heldur veltuhærri mánuður í flokknum en nóvember, með auknum vinsældum afsláttardaga í nóvember gæti lækkunin í desember síðastliðnum verið til marks um að jólaverslun sé að færast framar. Í samhengi við þetta má nefna að nóvembermánuður 2018 var í líflegri kantinum með 10,6% veltuvöxt frá nóvember 2017 í flokki húsgagna. Í desember varð einnig samdráttur í undirflokkum húsgagna en velta með skrifstofuhúsgögn minnkaði um 31% á milli ára og velta með rúm dróst saman um 1,5% á sama tímabili.

Svipaða sögu má segja af byggingavöruverslun en þar dróst veltan saman um 4% á milli ára í desember síðastliðnum. Þetta gerist, líkt og í flokki húsgagna, eftir kröftugan nóvember þar sem veltuvöxtur var 21,7% frá sama mánuði 2017.