Segja má að jólaverslunin hafi farið af stað með pomp og prakt í ár, en í nóvember síðastliðnum jókst öll tegund verslunar talsvert frá fyrra ári. Íslensk heimili hafa meira á milli handanna fyrir þessi jól en undanfarin jól og er aukningin í smásöluveltu í nóvember í beinu framhaldi af þeim uppgangi í versluninni sem sést hefur frá áramótum.

Mest var veltuaukningin í varanlegum neysluvörum á borð við heimilisbúnað og stór raftæki. Sala á svokölluðum hvítum raftækjum (t.d. kæliskápum, raftækjum í eldhús og öðrum heimilistækjum) jókst um fjórðung á breytilegu verðlagi í nóvember frá sama mánuði í fyrra.

Aukningin í svokölluðum brúnum raftækjum (t.d. sjónvörpum) nam tæplega 15%. Sala á tölvum jókst um 1%, en á hinn bóginn dróst sala snjallsíma saman um 3,9%. Rannsóknarsetur verslunarinnar (RSV) segir samdráttinn líklega skýrast af mánaðarsveiflum, en venjulega er hægt að greina miklar sveiflur í sölu þegar vinsælir nýir símar koma á markað.

Sala á fötum og skóm tók síðan mikinn kipp, en þannig var sala á fötum 12,7% meiri í nóvember í ár heldur en í fyrra og skóverslun jókst um 16%. Þess má geta að verð á fötum var 3,3% lægra í nóvember en í sama mánuði í fyrra og verð á skóm 4,9% lægra, m.a. vegna afnáms tolla.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð ,

  • Kínverska fjarskiptafyrirtækið Huawei ætlar að auka umsvif sín á Íslandi.
  • Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra segist ósáttur við umræðu fjölmiðla um PISA-könnunina.
  • Launamunur er talsverður milli sveitarfélaga, en hvergi er að finna hærri meðallaun en í Fjarðarbyggð.
  • Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips, er í ítarlegu viðtali.
  • Fjallað er um skiptalok IEMI, sem áður bar nafnið Iceland Express.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um fjárlög.