Íbúar Evrópu hafa litla trú á því að hagkerfi Evrópusambandsins geti keppt við hávaxtarhagkerfi Asíuríkjanna en að sama skapi eru þeir sannfærðari en áður um að ekki eigi að horfa til Bandaríkjanna í leit að lausnum sem leiða til örari vaxtar. Þetta kemur fram í nýrri könnun FT/Harri og þykja niðurstöðurnar benda til þess að ágætur hagvöxtur í álfunni að undanförnu hafi ekki sannfært íbúa hennar að evrópsku hagkerfin séu á réttri leið. Könnunin var stóð yfir frá 6. september til þess 17. á meðan hræringar voru á mörkuðum og umfjöllun sterkt gengi evru gagnvart Bandaríkjadal var áberandi í fjölmiðlum.

Könnunin var gerð meðal 6.500 þátttakanda í Þýskalandi, Bretlandi, Frakklandi, Ítalíu, Spáni auk þátttakenda í Bandaríkjunum. Fram kemur í frétt breska blaðsins Financial Times um niðurstöðurnar að tvennt standi uppi úr. Almenn svartsýni meðal íbúa álfunnar á framtíðarhorfur í hagkerfum heimalanda þeirra og að fátt sé að sækja til bandarísku útgáfunnar af kapítalisma.

Mesta svartsýnin ríkir meðal íbúa þeirra Miðjarðarhafsríkja sem eiga aðild að myntsamstarfi ESB. Hátt í 70% Ítala, 58% Frakka og 47% Spánverja sögðust vera svartsýn á horfurnar. Tölurnar voru blandaðri í Bretlandi og Bandaríkjunum en 36% Þjóðverja sögðust vera bjartsýn, eða tveimur prósentum fleiri en sögðust vera svartsýn.

Niðurstaða könnunarinnar bendir jafnframt til þess hagkerfi aðildarríkja evrunnar muni áfram halda "þjóðlegri vídd," ef svo má segja. Aðspurðir af því hvort að frjálsir markaðir hefðu yfirburði yfir aðrar tegundir hagstýringar skáru Þjóðverjar og Spánverjar sig frá öðrum í afstöðu sinni: 48 og 49% aðspurðra svöruðu spurningunni játandi. Hinsvegar var andstaðan við frjálst markaðshagkerfi mest á Ítalíu og í Frakklandi. Í þeim löndum var einnig sú skoðun að alþjóðafyrirtæki væru valdameiri en ríkisstjórnir í meiri mæli áberandi en í öðrum löndum þar sem að könnunin fór fram.

Athygli vekur að bæði á Ítalíu og í Frakklandi var andstaðan við verkalýðsfélög mikil. Naumur meirihluti í báðum löndum telur að þau hafi ekki mikilvægt hlutverk á vinnumörkuðum í dag. Hinsvegar voru tveir þriðju aðspurðra í Þýskalandi og á Spáni, auk meirihluta á Bretlandi, á þeirri skoðun að þau ættu erindi í samtímanum.

Leiða má að því líkum að andstaðan í Ítalíu og í Frakklandi bendi til þess að verkalýðsfélög kunni að hafa leikið of mikilvægt hlutverk í þessum löndum: Er þetta sérstaklega áhugavert þegar kemur að Frakklandi en ljóst þykir að afstaða þeirra gagnvart efnahagsumbótum Nicolaz Sarkozy, forseta landsins, muni ráða miklu um hvort að honum takist á hrinda þeim í framkvæmd