Jón Birgir Gunnarsson ráðinn markaðs- og sölustjóri Skaginn 3X. Jón Birgir mun leiða þau teymi sem bera ábyrgð á markaðs og sölumálum á vörum og lausnum 3X Technology á Ísafirði sem og Skagans á Akranesi.  Jón Birgir mun hafa aðalstarfsstöð á skrifstofum félaganna í Sjávarklasanum í Reykjavík. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Jón Birgir starfaði um átján ára skeið hjá tækjaframleiðandanum Marel, síðast sem framkvæmdastjóri fiskiðnaðarsviðs. Síðastliðin tvö ár hefur Jón Birgir starfað sem rekstrarstjóri hjá Controlant ehf. sem nýtir nettengda hluti og gagnaský til að auka sjálfvirkni í hitastigseftirliti. Jón Birgir lauk MBA námi frá Háskóla Íslands árið 2009, véliðnfræði frá Tækniskóla Íslands 1996 ásamt meistarabréfi í vélsmíði frá sama tíma.

„Skaginn 3X samanstendur af tveimur félögum sem hafa í tvo áratugi starfað í sveitarfélögum þar sem útgerð og vinnsla eru mikilvægar stoðir.  Með góðu samstarfi þar og við önnur hátæknifyrirtæki hafa 3X og Skaginn þróað og framleitt fjölbreyttar vörulínur fyrir matvælavinnslur víða um heim ásamt  getu til að hanna og útfæra vinnslulausnir sem auka verðmæti í vinnslu,“ segir að lokum í tilkynningunni.