„Ástæða fyrir því að ég kem til Íslands með fjármagnið mitt er sú að ég sé mikla möguleika á Íslandi. Mig langar til að vera með og reyna að hafa jákvæða áhrif,“ segir frumkvöðullinn og Seltirningurinn Jón S. von Tetzchner, um fjárfestingar sínar hér á landi.

Fram kemur í Viðskiptablaðinu að Jón á þrjú einkahlutafélög hér á landi sem halda utan um fjárfestingar hans. Jón hefur flutt vel á fjórða milljarð króna hingað til lands í gegnum fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands til að fjárfesta hér á landi. Skráðir eigendur félaganna eru félög í eigu Jóns í Noregi en þar hefur hann verið búsettur um árabil. Samanlagt virði eigna fyrstu tveggja félaganna nemur tæpum 590 milljónum íslenskra króna. Samanlagt tap félaganna þriggja nam á síðasta ári 73,6 milljónum króna, samkvæmt nýbirtum ársreikningum.

Jón stofnaði hugbúnaðarfyrirtækið Opera Software árið 1995. Afraksturinn var vafrinn Opera. Jón var forstjóri Opera Software og með stærstu hluthöfum þar til árið 2010 þegar hann stóð upp úr stólnum. Um svipað leyti hóf hann að selja eignarhluti sína í Opera Software. Á þeim tíma átti hann 15% hlut í Opera Software og má ætla að markaðsverðmæti þeirra hafi numið um 6 milljörðum króna. Áður en Jón seldi hluti sína þá gaf hann fjölskyldu sinni hlutabréf í Opera Software. Ætla má að markaðsverðmæti gjafarinnar hafi numið 460 milljónum króna.