Jón Gnarr, framkvæmdastjóri dagskrársviðs 365 segist ekki viss um hversu mikið fagnaðarefni koma Netflix til Íslands sé fyrir neytendur. Þetta kemur fram á Facebook síðu Jóns.

Jón segir að það sé mikið lagt á sig við að efla innlenda framleiðslu og dagskrá. Jón segir að innanborðs hjá 365 sé sérstök handritsþróunardeild og að nýlokið sé við skriftir á sjónvarpsseríu og að mörg önnur metnaðarfull verkefni séu í bígerð. Hann segist hafa áhyggjur af komu Netflix inn á þennan markað.

„Það er nokkuð flókið að gera íslenska sjónvarpsþætti. Sérstaklega með tilliti til fjármögnunar. Kvikmyndasjóður Íslands leggur enga sérstaklega áherslu á sjónvarp. Þeir styrkja aðallega kvikmyndir og sjónvarp mætir eiginlega afgangi. [...] Ef fyrirtæki einsog 365 og fleiri hætta að sjá sér fært að standa í því að framleiða íslenskts sjónvarpsefni þá er það hreint ekkert fagnaðarefni. Það er bara synd.“

Samkvæmt könnun sem unnin var fyrir Viðskiptablaðið vorið 2014 voru notendur Netflix á Íslandi yfir 20.000.

Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365 sagði í samtali við mbl.is að koma Netflix til landsins breyti ekki miklu enda hafi fjölmörg heimili þegar aðgang að bandarísku útgáfunni.