Jón Birgir Gunnarsson hefurverið ráðinn nýr rekstrarstjóri nýsköpunarfyrirtækisins Controlant. Fyrirtækið spratt upp úr Háskóla Íslands árið 2004 og hefur þróað búnað til að hafa gæðaeftirlit með viðkvæmum vörum, svo sem lyfjum og matvælum. Jón Birgir er að menntaður vélvirki en gekk til liðs við Marel að loknu námi, þar sem hann hefur verið síðan og gegnt ýmsum störfum, nú síðast framkvæmdastjóri Fiskiðnaðarseturs. Þá bætti hann við sig MBA gráðu frá HÍ árið 2009.

Hvað fær framkvæmdastjóra hjá Marel til að hefja störf hjá 15 manna nýsköpunarfyrirtæki?

„Ég var búinn að vera hjá Marel í 18 ár og fannst vera kominn tími á þetta. Mér finnst að ef maður væri mikið lengur, þá væri maður búinn að velja að vera þarna alla ævi,“ segir Jón Birgir sem kveðst spenntur fyrir nýja starfinu. „Þetta er rosalega spennandi og þetta fyrirtæki kveikti strax í mér. Þetta er allt annað en hjá Marel. Þetta er þannig stærð á fyrirtæki að maður sér fyrir sér að fólk gangi í það sem þarf að gera.“

Að sögn Jóns eru mikil tækifæri fyrir Controlant á erlendum vettvangi. „Málið er að þeir eru með framúrskarandi vöru og tækifærið núna snýst um að fá vogarafl til að koma vörunni út á alþjóðamarkað. Við teljum mikla vaxtarmöguleika fyrir hendi og stefnt er að því að auka umsvif á erlendum markaði töluvert mikið.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .