*

þriðjudagur, 18. desember 2018
Erlent 17. desember 2017 12:01

Jón og Gunna vilja bara græða

Peningaprentun seðlabanka, aukinn áhugi Asíubúa, markaðsmisnotkun og óhófleg bjartsýni hafa verið nefnd til að útskýra ævintýralega gengishækkun Bitcoin.

Snorri Páll Gunnarsson
Bitcoin: varanleg umbylting fjármálakerfisins eða stærsta bóla fjármálasögunnar?

Þó að lítið fari fyrir umræðu um Bitcoin hér á landi hefur mikið verið rætt um uppgang hennar vestanhafs. Virði Bitcoin hefur 19-faldast frá áramótum. Ýmsar ástæður hafa verið nefndar fyrir gríðarlegri gengishækkun Bitcoin.

Ein ástæða gæti verið magnbundin íhlutun eða peningaprentun beggja vegna Atlantshafsins. Eftir fjármálakreppuna reyndu seðlabankar Bandaríkjanna og Evrópu að örva hagkerfi sín með fordæmalausri lækkun stýrivaxta og peningaprentun. Hugsanlega hefur ótti við þenslu á eignamörkuðum og óðaverðbólgu hvatt fólk til að koma lausu fé yfir í Bitcoin. Seðlabankar Bandaríkjanna og Evrópu eru þó að draga úr örvunaraðgerðum sínum og hækka vexti.

Umfjöllun Wall Street Journal nefnir aukinn áhuga almennra fjárfesta í Asíu, sérstaklega í Japan og Suður Kóreu, auk áhuga stærri vogunarsjóða í Bandaríkjunum og verslanakeðja í Asíu. Tilkynningar kauphalla um að taka framvirka samninga tengda Bitcoin til viðskipta gætu einnig haft áhrif til hækkunar, enda geta stórir fjárfestar á borð við banka nú farið að veðja á verðið á Bitcoin án þess að eiga Bitcoin.

Markaðsmisnotkun hefur einnig verið nefnd. Reglusetningarleysi Bitcoin gefur rafmyntinni aðdráttarafl fyrir markaðsmisnotkun. Fjársterkir aðilar geta sammælst um að kaupa og selja Bitcoin sín á milli án hagnaðar eða taps til að þrýsta upp verðinu í því sem kallast á ensku painting the tape, en í nýlegri umfjöllun Bloomberg er talið að um þúsund manns eigi um 40% af heildarforða Bitcoin.

Aðrir telja að hér sé á ferð fjármálabóla. Bitcoin er takmarkað fyrirbæri – í dag eru um 16 milljón Bitcoin í umferð af 21 milljón. Verð á Bitcoin ræðst því af eftirspurn og væntingum. Fólk með takmarkaða þekkingu á fjármálum les blöðin og heyrir fregnir af ævintýralegri ávöxtun Bitcoin. Það kaupir Bitcoin í þeirri trú um að aðrir muni kaupa Bitcoin eign þeirra af þeim síðar á hærra verði. Vegna hjarðhegðunar geta fjárfestar elt hver annan upp í óhóflegri bjartsýni sem síðan leiðréttist snögglega þegar viðhorf og væntingar breytast. Þá springur bólan.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Bitcoin bóla bylting